Aðkoma almennings að eftirliti með ávinningi og áhættu lyfja
Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur ákveðið að opna sérfræðinganefndarfundi um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja fyrir almenningi. Þátttaka í opnum fundum stendur öllum til boða og verða fundirnir auglýstir með fyrirvara á heimasíðu Lyfjastofnunar Evrópu. Frá þessu er sagt á vef Lyfjastofnunar.
Fundirnir (sk. public hearings) varða samfellt eftirlit með öryggi og verkun lyfja og verða haldnir af Sérfræðinefnd EMA um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC). Þess er vænst að fyrsti opni fundurinn verði haldinn í september 2016.
Opnir fundir sem þessir gera EMA kleift að virkja almenning í eftirliti með öryggi lyfja. Með þeim gefst færi á að taka til greina álit sjúklinga/almennings og reynslu hvað varðar áhættu og ávinning við notkun lyfja, þ.á.m. hvað þeim þykir ásættanlegt í þeim efnum að teknu tilliti til annarra meðferðarkosta, ásamt því að hjálpa til við að meta hvaða leiðir er ákjósanlegast að velja til að lágmarka viðkomandi áhættu. Opnum fundum er ætlað að styðja við ákvarðanatöku nefndarinnar með því að afla sjónarmiða, þekkingar og innsýnar í hvernig lyf eru notuð í meðferð sjúklinga til viðbótar við vísindalegt mat nefndarinnar á fyrirliggjandi gögnum.