Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins í Varsjá
Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins (NATO) var settur í Varsjá í Póllandi í dag að viðstöddum Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra og Lilju Dögg Alfreðsdóttur utanríkisráðherra. Viðbúnaður og varnir í Evrópu voru meðal helstu umræðuefna. Að loknu ávarpi Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins og Andrzejs Duda forseta Póllands hófst vinnufundur leiðtoganna, sem fer fram á þjóðarleikvangi Pólverja.
“Aukinn viðbúnaður í Evrópu er afleiðing af lakari öryggishorfum í Evrópu á undanförnum árum, bæði er varðar stöðu mála í Úkraínu og uppgang ISIL á suðurjaðri bandalagsins. Við þær aðstæður er ábyrgt að treysta varnir bandalagsríkja og Ísland hefur lagt þar af mörkum með borgaralegum sérfræðingum og auknum fjárframlögum.” segir Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.
Utanríkisráðherrar funduðu einnig í NATO-Georgíunefndinni um stöðu mála í Georgíu.
“Samskiptin við Rússland eru eðlilega til umræðu. Ég hef lagt áherslu á að viðhalda samtali við rússnesk stjórnvöld þrátt fyrir ágreining, og freista þess að draga úr spennu milli aðila. Hluti af því er að bandalagið og Rússland séu skýr í sínum skilaboðum og hafi sem mest gegnsæi um fyrirætlanir sínar”, segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.
Í upphafi fundar var athöfn þar sem minnst var fallinna liðsmanna NATO ríkja í aðgerðum og verkefnum. Íslenskur lögreglumaður, Sigfús Benóný Harðarson, var fánaberi fyrir Íslands hönd. Fundinum verður framhaldið í kvöld og á morgun.