Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vinna við uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum hafin

Ferðamenn á Brennisteinsöldu - mynd

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað verkefnisstjórn, sem gera á tillögur um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum um land allt. Skipan verkefnisstjórnarinnar er í samræmi við ný lög sem Alþingi samþykkti í vor.

Stöðug auking ferðamanna hingað til lands kallar á auknar framkvæmdir til uppbyggingar og verndar náttúru á fjölsóttum og viðkvæmum stöðum. Þetta er í fyrsta sinn hér á landi sem unnið er að heildstæðri áætlun sem nær yfir allt landið og rammar inn mikilvæga þætti sem stuðla að því að vernda svæðin og búa undir vaxandi álag vegna ferðaþjónustu. Markmiðið er að móta stefnu og samræma tillögur um slíka uppbyggingu og viðhaldi ferðamannsvæða með náttúruvernd og sjálfbærni að leiðarljósi.

Með innviðum er átt við fasta innviði, svo sem stíga, skilti og gestastofur sem og þjónustutengda innviði, svo sem landvörslu og eftirlit. Markmið laganna er ná heildrænt utan um þá staði sem þarfnast verndunar vegna aukins ágangs af völdum ferðamennsku og útivistar. Þá er þeim ætlað að samræma heildstæða stefnu um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í þágu náttúruverndar og til verndar menningarsögulegum minjum.

Til að ná þessum markmiðum verður gerð stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára auk þriggja ára verkefnaáætlunar sem er hluti af og innan ramma tólf ára áætlunarinnar. Með áætlun til tólf ára er lögð áhersla á langtímahugsun innviðauppbyggingar, yfirsýn og hagkvæmni í ráðstöfun ríkisfjármuna.

Verkefnisstjórnin er skipuð til þriggja ára í senn en í henni sitja:

  • Jón Geir Pétursson, skrifstofustjóri, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, formaður
  • Guðný Sverrisdóttir, ráðgjafi, fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytis
  • María Reynisdóttir, sérfræðingur, tilnefnd af atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti
  • Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri, tilnefndur af forsætisráðuneyti
  • Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu, tilnefnd af forsætisráðuneyti
  • Guðjón Bragason, sviðsstjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Með verkefnisstjórninni starfar Dagný Arnarsdóttir, sem hefur verið ráðin til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til að hafa umsjón með gerð landsáætlunarinnar. Þá  hefur Samband íslenskra sveitarfélaga ráðið Örn Þór Halldórsson til verkefnisins.

Verkefnisstjórnin hefur þegar komið saman en fyrsti hluti verkefnisins felst í því að kortleggja þá staði sem áætlunin mun taka til, þ.e. hvaða svæði þarfnist verndunar í formi innviða. Samhliða þeirri vinnu beinast sjónir verkefnisstjórnarinnar að stökum verkefnum á þessum stöðum þar sem m.a. verður skoðað hvernig náttúra og menningarminjar á staðnum séu best verndaður fyrir náttúruspjöllum eða raski vegna aukins ágangs ferðamanna.

Gert er ráð fyrir að tillögur að áætlununum verði tilbúnar í lok ársins og að tólf ára landsáætlun verði lögð fyrir Alþingi til samþykktar í formi þingsályktunartillögu. Í september næstkomandi er gert ráð fyrir að gefin verði út skammtímaáætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum sem gildi til 1. janúar 2018. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta