Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2016 Matvælaráðuneytið

Sæstrengur til Evrópu – skýrsla verkefnisstjórnar

Hluti verkefnisstjórnarinnar og ráðherra: Ragna Árnadóttir, Erla Gestsdóttir, Ingvi Már Pálsson, Ragnheiður Elín og Benedikt Gíslason - mynd
Í júní 2013 skilaði starfshópur skýrslu til iðnaðar- og viðskiptaráðherra um skoðun á raforkusæstreng á milli Íslands og Evrópu. Um haustið það ár var sú skýrsla lögð fram á Alþingi til almennrar umræðu og skilaði atvinnuveganefnd Alþingis áliti sínu vegna hennar í janúar 2014. Í áliti atvinnuveganefndar var lagt til að ýmsir þættir málsins yrðu skoðaðir nánar og í kjölfar þess voru skilgreind átta verkefni og verkefnisstjórn sæstrengs sett á laggirnar, af iðnaðar- og viðskiptaráðherra, til að hafa yfirumsjón með þeim. 

Verkefnisstjórn sæstrengs hefur nú skilað lokaskýrslum til iðnaðar- og viðskiptaráðherra vegna umræddra verkefna. Meðal þess sem þær skýrslur fela í sér er heildstæð kostnaðar- og ábatagreining og mat á áhrifum sæstrengs á efnahag, heimili og atvinnulíf, kortlagning á eftirspurn eftir raforku næstu árin, raforkuþörf sæstrengs og hvernig mæta eigi henni, mat á afgangsorku, áhrif á flutningskerfi raforku, ýmis tæknileg atriði, mat á nýtingu jarða og rekstri smærri virkjana, umhverfisáhrif, þróun orkustefnu Evrópusambandsins og reynsla Noregs.

Jafnframt skilaði verkefnisstjórnin sérstakri skýrslu um viðræður við bresk stjórnvöld um hugsanlegan sæstreng milli Íslands og Bretlands, en þær viðræður hófust í kjölfar fundar forsætisráðherra landanna í október 2015.

Rétt er að taka fram að skýrslum verkefnisstjórnar var skilað til ráðherra fyrir Brexit og þar af leiðandi er í þeim engin umfjöllun um möguleg áhrif Brexit á sæstrengsverkefnið. Er það í raun sjálfstætt rannsóknarefni og frekar breskra stjórnvalda að svara þeirri spurningu en íslenskra. Óljóst er t.d. hvaða áhrif útganga Breta úr ESB hefur á orkustefnu Breta og hvort það leiði til þess að Bretar dragi úr áherslum sínum og markmiðum um að auka hlutfalla endurnýjanlegra orkugjafa í sínum orkubúskap, sem hefði þá neikvæð áhrif á verkefnið. Þau atriði önnur sem meðal annars þarf að skoða nánar í kjölfar Brexit eru áhrif lækkunar pundsins á viðskiptalegar forsendur verkefnisins, áhrif Brexit á samstarf Breta og ESB varðandi stuðningskerfi fyrir endurnýjanlega orku og áhrif á aðgengi að fjárhagslegum styrkjum sem ESB veitir til innviðaverkefna af því tagi sem sæstrengurinn er, en sæstrengsverkefnið var inn á s.k. PCI lista hjá ESB sem "Project of Common Interest".

Vinna verkefnisstjórnar sæstrengs hefur falist í söfnun upplýsinga og greininga sem hugsaðar eru sem liður í ákvarðanatöku fyrir næstu skref í þessu viðamikla máli. Erfitt er að draga saman helstu niðurstöður þeirrar vinnu þar sem margir ólíkir þættir voru til skoðunar en við vinnuna var eftir fremsta megni reynt að svara þeim spurningum sem atvinnuveganefnd Alþingis lagði fram í nefndaráliti sínu frá janúar 2014. 

----------------------

Stutt samantekt úr skýrslunum:

 

Kostnaðar- og ábatagreining á sæstreng til Bretlands leiðir í ljós að verkefnið nær ekki lágmarksarðsemi nema til komi beinn stuðningur frá breskum stjórnvöldum. Vegna sérstöðu verkefnisins þarf að sérsníða viðskiptalíkan, stuðningskerfi og regluverk fyrir verkefnið. Að því gefnu að það gangi eftir geta jákvæði áhrif á landsframleiðslu verið umtalsverð (1,2-1,6%).

Sæstrengur kallar á fjárfestingar í raforkuvinnslu upp á 1.459 MW af nýju uppsettu afli (samkvæmt mið-sviðsmynd). Er ráðgert að sú raforka komi að hluta úr nýtingarflokki Rammaáætlunar, frá smávirkjunum, vindorku, lágjarðvarma og aflaukningu í núverandi virkjunum. Með hliðsjón af reynslu Noregs er áætlað að hægt sé að reisa um 150 MW af nýjum smávirkjunum (undir 10 MW) með tilkomu sæstrengs.

Áætlað er að sæstrengur leiði til hækkunar á raforkuverði á bilinu 0,85 - 1,7 kr./kWst., sem er um 5-10% hækkun á raforkureikning meðalheimila. Kemur sú hækkun þyngra niður á heimilum sem notast við rafhitun. Reiknuð árleg áhrif hærra raforkuverðs á atvinnugreinar eru áætluð 2,1 - 4,2 milljarðar króna. Í skýrslunum er bent á mögulegar mótvægisaðgerðir stjórnarvalda til að mæta hækkun raforkuverðs.

Bent er á að sæstrengur hefur í för með sér aukið orkuöryggi og mun geta uppfyllt um 2% af raforkunotkun í Bretlandi og draga þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda þar. Á móti koma umhverfisáhrif vegna framkvæmda við uppbyggingu á nýrri orkuvinnslu á Íslandi, styrking flutningskerfis á landi og lagning sæstrengs á hafsbotni.

Til að geta fætt 1.000 MW sæstreng þarf mikla styrkingu á flutningskerfi raforku sem felst annað hvort í raforkuflutningsmannvirki yfir hálendið eða með aukinni styrkingu á núverandi byggðalínu. Uppbygging 220 kV kerfis er ekki raunhæfur kostur ef landtaka er á Austfjörðum, heldur þarf að byggja tvöfaldar 400 kV línur í stað einfaldra 220 kV lína. Ef landtaka er á Suðurlandi þarf tvöfalda 220 kV tengingu milli Norðausturlands og Suðurlands. Áætlað er að kostnaður við styrkingu flutningskerfis, vegna sæstrengs, liggi á bilinu 30 - 75 milljarðar króna. Nánari greining á ýmsum tæknilegum þáttum er enn í gangi á vegum sér starfshóps og ráðgert að henni ljúki í árslok.

Í heildina er fjárfestingarkostnaður sæstrengsverkefnisins, með strengjum og umbreytistöðvum, flutningi innanlands á Íslandi og þörf fyrir frekari fjárfestingu í orkuvinnslu á Íslandi, áætlaður um 800 milljarðar króna.

Á síðustu árum hefur orkustefna Evrópusambandsins þróast í þá átt að draga úr styrkjum til endurnýjanlegra orkugjafa, eftir því sem valkostir verða samkeppnishæfari. Sama má segja um stefnu breskra stjórnvalda. Kann það að hafa áhrif á fjárhagslegar forsendur verkefnisins.

Áætlað er að nýjir sæstrengir frá Noregi til Bretlands og Þýskalands muni hafa í för með sér hækkun á raforkuverði um 4 til 5 evrur á MWst. og er verðmæti tilflutnings frá neytendum til framleiðenda í Noregi metið á um 610 milljón evrur á ári. Ekki hefur verið farið í sérstakar mótvægisaðgerðir fyrir heimili í Noregi og hafa sæstrengir þar verið umdeildir meðal almennings og iðnaðar, þrátt fyrir aukið afhendingaröryggi o.fl.

Eitt af verkefnunum sneri að umhverfismati áætlana. Til að unnt sé að framkvæma slíkt mat á verkefninu, á grundvelli laga nr. 105/2006, þarf hins vegar að liggja fyrir skýr "áætlun" sem unnt sé að meta. Þar sem mögulegt sæstrengsverkefni er enn á hugmyndastigi var því ekki unnt að setja verkefnið sem slíkt í umhverfismat áætlana á þessum tímapunkti. Almenna umfjöllun um umhverfisáhrif er hins vegar að finna í skýrslunum.

Hlutverk viðræðuhóps Íslands og Bretlands var að afla upplýsinga með það fyrir augum að þær nýtist við frekari ákvarðanatöku stjórnvalda viðkomandi landa. Viðræðurnar leiddu í ljós áhuga Breta til að kanna málið frekar þrátt fyrir ákveðna óvissuþætti sem komu fram í viðræðunum og felast m.a. í eftirfarandi: 

  • Verkefnið er ekki fjárhagslega tækt án stuðningskerfis frá Bretum.
  • Hefðbundin viðskiptalíkön og regluverk fyrir sæstrengi ná ekki yfir verkefnið.
  • Sérsníða þarf viðskiptalíkan, regluverk og stuðningskerfi fyrir verkefnið, og fá samþykki eftirlitsaðila.
  • Óvissa er um viðbótar raforkuframleiðslu á Íslandi og tímasetningar í því skyni.
  • Þörf á uppbyggingu flutningskerfis raforku og umhverfisáhrif því tengd.
  • Almenningsálit gagnvart sæstreng.

Viðræðuhópurinn var sammála að ákvörðun um hvort taka eigi verkefnið yfir á næsta stig, eða ekki, er ekki ákvörðun sem tekin verður innan viðræðuhópsins, samanber umboð hans, né heldur er það í verkahring viðræðuhópsins að gera tillögur um hvort ástæða sé að fara með verkefnið áfram yfir á næsta stig eða ekki.

Í lok viðræðnanna kom fram að ef ákvörðun verður tekin um að fara með sæstrengs verkefnið áfram yfir á næsta stig gæti það falist í eftirfarandi þáttum, sem snýr að stjórnvöldum landanna:

  • Sameiginleg kostnaðar- og ábatagreining. Til að finna betur sameiginlegar forsendur og helstu stærðir.
  • Frekari sameiginleg könnun á því hvers konar regluverk þarf að sérsníða fyrir verkefnið, hvaða svigrúm er til þess og meta líkur á því hvort slíkt regluverk fengist samþykkt af eftirlitsaðilum.
  • Frekari sameiginleg könnun á því hvers konar sérsniðið viðskiptalíkan gæti gert verkefnið áhugavert fyrir báða aðila og fjárhagslega tækt.
  • Frekari sameiginleg könnun á því hvers konar stuðningskerfi gæti verið unnt að sérsníða til að styðja við verkefnið og gera það að veruleika.
  • Frekari sameiginleg könnun á fyrirkomulagi raforkuflutnings á milli landanna, t.d. nánari samanburður á grunnorkuvinnslu ("base load") og óstýranlegri orkuvinnslu ("intermittent").

Niðurstöður viðræðna við Breta eru dregnar saman í sameiginlegri yfirlýsingu frá viðræðuhópnum.

----------------------

Fylgiskjöl:

  1. Skýrsla Kviku og Pöyry - kostnaðar- og ábatagreining
  2. Skýrsla Orkustofnunar um kortlagningu á eftirspurn innlendra aðila eftir raforku næstu árin og mat á afgangsorku í íslenska raforkukerfinu
  3. Kafli úr skýrslu iðnaðar- og viðskiptaráðherra um raforkumálefni (þingskjal 1070 - 644. mál), þar sem fjallað er sérstaklega um raforkuframleiðslu og raforkuþörf
  4. Skýrsla Orkustofnunar um raforkuþörf sæstrengs og nýja virkjunarkosti
  5. Samantekt frá starfshópi Landsnet, Landsvirkjun og National Grid um tæknileg atriði varðandi lagningu sæstrengs
  6. Kafli 2 úr Kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2015-2024 („Sæstrengur til Evrópu“)
  7. Skýrsla Orkustofnunar um mat á nýtingu jarða og rekstri smærri virkjana
  8. Greinargerð um þróun orkustefnu ESB með hliðsjón af sæstreng
  9. Greinargerð um reynslu Noregs
  10. Skýrsla Environice: Sæstrengur til raforkuflutninga - minnisblað um umhverfisþætti
  11. Álit atvinnuveganefndar um skýrslu ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu, dags. 30. janúar 2014
  12. Fundargerðir verkefnisstjórnar sæstrengs

----------------------

Fylgiskjöl:

  1. Fréttatilkynning frá forsætisráðuneytinu, dags. 28. okt. 2015
  2. Fréttatilkynning frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, dags.6. nóv. 2015
  3. Bréf frá ANR til DECC, dags. 23. nóvember 2015
  4. Bréf frá DECC til ANR, dags. 8. desember 2015
  5. Kynning Kviku og Pöyry á CBA skýrslu frá fundi í London 8. febrúar 2016
  6. Sameiginleg yfirlýsing um viðræður

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta