Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2016 Utanríkisráðuneytið

Ísland heldur áfram að laga innleiðingarhallann

Innleiðingarhalli Íslands er nú 1,8% samkvæmt nýju frammistöðumati Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), samanborið við 2,1% þegar matið var síðast birt í október á síðasta ári. Nýjasta frammistöðumat ESA var kynnt í dag þar sem gerð er grein fyrir árangri EES/EFTA-ríkjanna við að innleiða EES-gerðir í landsrétt. Frammistöðumat stofnunarinnar er birt á hálfársfresti og á því tímabili sem tekið er til skoðunar að þessu sinni eru 16 tilskipanir sem Ísland hefur ekki innleitt innan tilskilins tímafrests. Undanfarin misseri hefur Ísland stöðugt verið að bæta þessa hlið á framkvæmd EES-samningsins. Í nóvember 2014 var hallinn 2,8% og 3,1% í apríl 2014. Þó er ljóst að það þarf að gera betur því miðað er við að innleiðingarhalli hjá ríkjum á evrópska efnahagssvæðinu (EES) sé ekki umfram 1%. 

Þegar innleiðingarhalli annarra EFTA-ríkja í EES er skoðaður kemur í ljós að Noregur hefur innleitt allar tilskipanir innan tímamarka. Innleiðingarhallinn í Liechtenstein er 1,2%. Á grundvelli Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar hefur verið unnið að því að bæta framkvæmd EES-samningsins á Íslandi og eru innleiðingarmál þar með talin. Þrátt fyrir bættan árangur er Ísland engu að síður enn í neðsta sæti þegar innleiðingarhalli ríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu er tekinn saman yfir tímabilið sem er til skoðunar, en þau eru 31 talsins.
Frammistöðumati ESA sýnir hlutfall tilskipana sem hafa verið teknar upp í EES-samninginn sem ekki hafa verið innleiddar eða ESA hefur ekki verið tilkynnt um innleiðingu á innan tilskilinna tímamarka. Vísað er til þess hlutfalls sem innleiðingarhalli. Upplýsingarnar í frammistöðumatinu miða við stöðuna 31. október 2015.


Áfram er unnið að því að ná því markmiði stjórnvalda að innleiðingarhallinn fari niður fyrir 1%. ESA mun framkvæma nýtt frammistöðumat í haust og er raunhæft að Ísland haldi áfram á sömu vegferð og bæti stöðu sína enn frekar.

Frammistöðumatið í heild sinni

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta