Hoppa yfir valmynd
21. júlí 2016 Utanríkisráðuneytið

Staða mála í Tyrklandi grafalvarleg

Íslensk stjórnvöld hafa fylgst grannt með þróun mála í Tyrklandi síðustu daga og segir Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra stöðu mála vera grafalvarlega. "Þróunin hefur verið mjög hröð og ófyrirsjáanleg og hvetur Ísland til stillingar og sátta," segir Lilja. "Það er mikilvægt að tyrknesk stjórnvöld virði mannréttindi í hvívetna. Eitt er að draga þá til ábyrgðar sem skipulögðu og stóðu að valdaránstilrauninni annað er að stunda víðfeðmar hreinsanir af pólitískum toga," segir utanríkisráðherra. Segir hún ákvörðunina um að lýsa yfir neyðarástandi í landinu vera sérstakt áhyggjuefni sem og hinar mjög svo umfangsmiklu gagnaðgerðir sem felast í fjöldahandtökum og uppsögnum tugþúsunda starfsmanna í skólum, lögreglu, stjórnsýslu og víðar.

Staða mála í Tyrklandi í kjölfar valdaránstilraunarinnar voru rædd í dag á fundi fastaráðs Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Vín. Þar tók Ísland undir yfirlýsingu Evrópuríkja þar sem lýst var stuðningi við lýðræðislegar stofnanir samfélagsins. Í yfirlýsingunni var lögð þung áhersla á að Tyrkland hefði í heiðri virðingu fyrir lýðræði, mannréttindum og grundvallarreglum réttarríkisins og að landið stæði við alþjóðlegar skuldbindingar sínar á vettvangi ÖSE. Valdaránstilraunin síðastliðinn föstudag var harðlega fordæmd og mannfall var harmað og samstöðu var lýst með tyrknesku þjóðinni. Tyrknesk stjórnvöld voru hvött til að gæta hófs í viðbrögðum sínum, þ.m.t. að virða Evrópusamninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sem m.a. leggur bann við dauðarefsingum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta