Tollareglur verða endurskoðaðar
Vinnureglur tollayfirvalda í Nígeríu hafa komið illa við íslenska fiskútflytjendur, þar sem tollurinn hefur undanfarin misseri miðast við gamalt viðmiðunarverð sem hefur verið allt að 40% hærra en markaðsverð á vörunum. Fyrir vikið leggst of hár tollur á vöruna. Í kjölfar funda íslenskrar sendinefndar, undir forystu Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra, með ráðamönnum í Nígeríu hafa tollayfirvöld tilkynnt að reglurnar verði teknar til endurskoðunar svo þær endurspegli betur markaðsverð á hverjum tíma. Unnið verði að úrlausn málsins með samtökum skreiðarinnflytjenda í Nígeríu.
,,Þetta eru góðar fréttir fyrir þær ríflega 20 íslensku fiskvinnslur sem selja þurrkaðar fiskafurðir hingað til Nígeríu. Það er sanngirnismál að varan sé rétt verð- og tolllögð, bæði fyrir seljendur og kaupendur, og ég fagna þeim góðu viðbrögðum sem við höfum fengið við okkar málaleitan. Málinu er langt frá því lokið, en hér eru stigin mikilvæg skref," segir Lilja Alfreðsdóttir sem stödd er í Abuja í Nígeríu.
Gildandi reglur um gjaldeyrisviðskipti setja miklar hömlur á innflutning á 41 vörutegund til Nígeríu, þar á meðal sjávarafurðum. Mögulegar breytingar á reglunum voru til umræðu á fundi Lilju með Kemi Adeosun, fjármálaráðherra Nígeríu, þar sem m.a. var rætt um reynslu Íslands af því að vinna sig út úr efnahagsþrengingum. Það sama var uppi á teningnum á fundi með Godwin Emefiele, seðlabankastjóra Nígeríu, sem sagði gildandi gjaldeyrisreglur tímabundnar. Hann hvatti til aukinna viðskipta milli landanna og taldi að með aukinni sölu á nígerískum vörum á Íslandi myndaðist aukið svigrúm fyrir íslenskar fiskafurðir í Nígeríu.
,,Við viljum sinna þessum mikilvæga markaði betur en hingað til, svo íslenskir útflytjendur geti staðið jafnfætis öðrum sem horfa til þessa stóra markaðar. Samkeppnin er hörð og það skiptir miklu máli að Íslendingar séu samkeppnishæfir, enda eru gjaldeyristekjur mikilvægar fyrir íslenska hagkerfið og leggja grunninn að velferð í okkar samfélagi,” segir Lilja.
Heimsókn utanríkisráðherra til Nígeríu lýkur í dag.