Lög um þjóðaröryggisráð samþykkt á Alþingi
Frumvarp til laga um þjóðaröryggisráð, sem Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra lagði fyrir Alþingi á vordögum, var í dag samþykkt mótatkvæðalaust og afgreitt sem lög frá Alþingi. Í þjóðaröryggisráði eiga fast sæti forsætisráðherra sem formaður ráðsins, utanríkisráðherra, innanríkisráðherra og ráðuneytisstjórar ráðuneytanna þriggja. Ennfremur eiga fast sæti í ráðinu tveir þingmenn, annar úr þingflokki sem skipar meirihluta á þingi en hinn úr þingflokki minnihluta. Þá sitja í ráðinu forstjóri Landhelgisgæslunnar, ríkislögreglustjóri og fulltrúi Landsbjargar. Einnig getur þjóðaröryggisráðið kallað til aðila til tímabundinnar setu í ráðinu vegna einstakra mála.
Þjóðaröryggisráði er meðal annars ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem Alþingi samþykkti fyrr á árinu og vera samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál. Ennfremur er ráðinu ætlað að meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og fjalla um önnur málefni sem varða þjóðaröryggi. Þá gera lögin ráð fyrir því að þjóðaröryggisráð, í samvinnu við háskólasamfélagið, hugveitur og fjölmiðla, beiti sér fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál. Þjóðaröryggisráð mun á ári hverju upplýsa Alþingi um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar og upplýsa utanríkismálanefnd þingins um hver þau mál sem líkleg eru til að hafa áhrif á þjóðaröryggisstefnuna og framkvæmd hennar.
„Þetta eru söguleg tíðindi. Í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins er til staðar þjóðaröryggisstefna og þjóðaröryggisráð sem horfir með heildstæðum hætti á öryggismál og þær margbreytilegu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Frumvarpið tók jákvæðum breytingum í meðförum þingsins og það er sérstaklega ánægjulegt að frumvarpið sé afgreitt í breiðri sátt á Alþingi og afar þýðingarmikið þegar um slíkt grundvallarmál er að ræða," segir Lilja.
Með lögum um þjóðaröryggisráð lýkur ferli sem rekur upphaf sitt til ársins 2009 þegar nefnd skipuð af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur skilaði áhættumatsskýrslu fyrir Ísland. Árið 2011 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu Össurar Skarphéðinssonar um að sett yrði á fót nefnd þingmanna til að móta tillögur að þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, meðal annars á grundvelli áðurnefndrar áhættumatsskýrslu. Nefndin skilaði tillögum sínum til Gunnars Braga Sveinssonar í ársbyrjun 2014 og á grundvelli þeirra lagði hann fram þingsályktunartillögu um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Sú tillaga var samþykkt í apríl sl. Í þjóðaröryggisstefnunni er meðal annars tilgreint að setja skuli á fót, með sérstökum lögum, þjóðaröryggisráð til að framfylgja stefnunni og lagði Lilja Alfreðsdóttir fram frumvarp þess efnis í maí sl.
„Ég er stolt af því að smiðshöggið hafi verið rekið á þetta mikilvæga verk með breiðri pólitískri samstöðu. Fjórir utanríkisráðherrar í þremur ríkisstjórnum hafa komið að því starfi með dyggri leiðsögn þingsins á hverjum tíma. Við byggjum því á traustum grunni í þeirri vegferð sem framundan er," segir Lilja.