Skógræktin og Héraðsprent heimsótt
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, heimsótti höfuðstöðvar Skógræktarinnar á Austurlandi í dag. Þá afhenti hún Héraðsprenti á Egilsstöðum staðfestingu á því að fyrirtækið er nú komið með norræna umhverfismerkið Svaninn.
Þetta er fyrsta heimsókn ráðherra í höfuðstöðvar hinnar nýju stofnunar, Skógræktarinnar, sem varð til 1. júlí síðastliðinn við sameiningu Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna í skógrækt. Ræddi ráðherra við skógræktarstjóra, Þröst Eysteinsson og annað starfsfólk Skógræktarinnar, þar sem farið var vítt og breitt yfir málefni hinnar nýju stofnunar og skógræktar á Íslandi. Sagði ráðherra gott að finna hversu mikil bjartsýni einkennir skógrækt á Íslandi og hvernig horft sé til framtíðar við skipulagningu skógræktarstarfsins framundan.
Frá fundi ráðherra með Skógræktinni.
Héraðsprent hlýtur Svansvottun
Að loknum fundi með Skógræktinni afhenti ráðherra hjónunum Gunnhildi Ingvarsdóttur og Þráni Skarphéðinssyni eigendum Héraðsprents Svansmerkið en prentsmiðjan er annað fyrirtækið á Austurlandi sem hlýtur vottunina. Héraðsprent var stofnað árið 1972 í 30 fermetra bílskúr en hefur vaxið og dafnað í gegn um tíðina og er nú rekið í 500 fermetra húsnæði á Egilsstöðum og er með 8 starfsmenn í fullri vinnu. Fékk ráðherra kynningu á starfsemi fyrirtækisins og sagði greinilegt að góð umgengni, nýtni og metnaður einkenndi alla starfsemi þess.
Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Kröfur Svansins fyrir prentsmiðjur miðast að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá öllu prentferlinu, allt frá uppruna hráefna til meðhöndlun úrgangs. Með vottuninni bætist Héraðsprent í ört stækkandi hóp Svansvottaðra fyrirtækja á Íslandi sem eru nú orðin 33 talsins.
Hjónin Gunnhildur og Þráinn sýna ráðherra prentsmiðjuna.