Drög að reglugerð um slysavarnir í höfnum til umsagnar
Innanríkisráðuneytið hefur nú til umsagnar drög að reglugerð um slysavarnir í höfnum. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til og með 18. september næstkomandi á netfangið [email protected]
Reglur um slysavarnir í höfnum hafa verið í gildi um nokkurt skeið hér á landi. Reglugerð um hafnamál frá 1996 innihélt heimild fyrir Siglingastofnun Íslands til að setja sérstakar reglur um slysavarnir í höfnum. Var það gert með reglum nr. 247/2000 um slysavarnir í höfnum. Eftir stofnun Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, og verkaskiptingu milli Samgöngustofu og Vegagerðarinnar liggur fyrir að reglugerð nr. 326/2004 um hafnamál er nær alfarið á hendi Vegagerðarinnar, að undanskildum VI. kafla. Þykir því til einföldunar rétt að leggja til að VI. kafli reglugerðar um hafnamál verði felldur brott og ný reglugerð sett um slysavarnir í höfnum þar sem verkefni sem eru alfarið á hendi Samgöngustofu væru útfærð.
Tillögurnar eru unnar á grunni núgildandi VI. kafla reglugerðar nr. 326/2004 um hafnamál. Endurskoðun reglnanna hófst á fundum sem Samgöngustofa hélt með öllum hafnarstjórum landsins. Þar komu fram ýmsar athugasemdir við núgildandi reglugerð. Drögin eru unnin út frá athugasemdum sem fram komu á þeim fundum og þannig komið móts við þarfir og væntingar hafnaryfirvalda.
Með tillögunum er leitast við að einfalda og skýra efni reglnanna í ljósi fenginnar reynslu. Fyrst og fremst er um að ræða orðalagsbreytingar þar sem núgildandi reglur þykja um margt óljósar. Markmiðið er að auðvelda starfsmönnum hafna að uppfylla gildandi kröfur auk þess sem fyrirsjáanlegt er að eftirlitið verði auðveldara og markvissara. Tilgangurinn er ekki að bæta í regluverkið eða setja nýjar íþyngjandi kröfur heldur er víða frekar dregið úr kröfum í ljósi breyttra aðstæðna og nýrrar tækni.