Hoppa yfir valmynd
2. september 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Stækkun og endurbætur á hjúkrunarheimilinu Kirkjuhvoli

Fyrsta skóflustungan tekin: Mynd Magnús Hlynur Hreiðarsson - mynd

Nýlega var tekin fyrsta skóflustunga að byggingu nýrrar álmu við hjúkrunarheimilið Kirkjuhvol á Hvolsvelli, auk þess sem ráðist verður í endurbætur á eldra húsnæði heimilisins. Framkvæmdasjóður aldraðra hefur veitt um 200 milljónir króna til verksins. Hlutur Framkvæmdasjóðs aldraðra nemur 40% af kostnaði á móti 60% framlagi sveitarfélagsins.

Hjúkrunar- og dvalarheimilið Kirkjuhvoll var stofnað af gömlu hreppunum í Rangárþingi eystra. Reksturinn heimilisins hófst 1. mars 1985 í húsnæði sem staðið hafði autt um skeið og var í upphafi hugsað sem fjölbýlishús. Heimilið var stækkað með viðbyggingu sem tekin var í notkun 1989 og nú eru hafnar framkvæmdir sem ætlað er að bæta verulega alla aðstöðu heimilismanna með aðstöðu og aðbúnaði samkvæmt viðmiðum velferðarráðuneytisins og í samræmi við kröfur nútímans.

Viðbyggingin verður um 1.500 fermetrar að stærð, þ.e. tæplega 1.200 fermetra hæð og 350 fermetra kjallari. Á hæðinni verða hjúkrunaríbúðir fyrir 12 heimilismenn.

Hjúkrunarrýmum á Kirkjuhvoli mun ekki fjölga með framkvæmdunum, heldur er markmiðið að bæta aðstöðu og aðbúnað íbúa á heimilinu.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, Ólöfu Guðbjörgu Eggertsdóttur, hjúkrunarforstjóra á Kirkjuhvoli og Lilju Einarsdóttur, oddviti sveitarfélagsins, taka fyrstu skóflustunguna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta