Skýrsla um rekstrarhagkvæmni og stöðu Landspítala
Nú liggur fyrir niðurstaða greiningar ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company á rekstrarhagkvæmni og stöðu Landspítalans sem unnin var í samræmi við tillögu fjárlaganefndar Alþingis. Skýrslan var kynnt stjórnendum Landspítalans, Embætti landlæknis, Sjúkratryggingum Íslands, fulltrúum fjárlaganefndar, velferðarnefndar o.fl. í velferðarráðuneytinu í dag.
Við gerð fjárlaga ársin 2016 lagði fjárlaganefnd Alþingis til að veittir yrðu fjármunir til að fjármagna greiningu og úttekt á rekstri og starfsemi Landspítalans og var það samþykkt.
Eins og fram kemur í formála meðfylgjandi skýrslu; Lykill að fullnýtingu tækifæra Landspítalans – Íslenska heilbrigðiskerfið á krossgötum, stendur velferðarráðuneytið að baki gerð hennar, en sérfræðingar McKinsey önnuðust viðtöl, greiningarvinnu og samantekt niðurstaðana í samstarfi við fulltrúa velferðarráðuneytisins, Embætti Landlæknis og Landspítalans. Gögn sem skýrslan byggist á voru unnin og greind í samstarfi við fjármálasvið spítalans.
Í skýrslunni er kastljósinu beint að afköstum á Landspítalanum, rekstrarhagkvæmni og framleiðni vinnuafls á spítalanum. Jafnframt er fjallað um nýtingu fjármuna, gæði veittrar heilbrigðisþjónustu og samspil Landspítalans við aðra hluta heilbrigðiskerfisins, þar á meðal heilsugæsluna og sérfræðilækna á eigin stofum.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir gott að þessi úttekt liggi nú fyrir. „Þarna höfum við sameiginlegan grunn til að ræða um stöðu Landspítalans og framlag hans í heilbrigðisþjónustunni á forsendum staðreynda og faglegs mats. Án efa eru þarna ábendingar sem munu nýtast á næstu mánuðum og misserum til úrbóta í heilbrigðiskerfinu með bætt skipulag, aukin gæði og skilvirkni að leiðarljósi.
- Skýrsla McKinsey um Landspítala (íslensk þýðing)
- Unlocking The Full Potential of Landspítali University Hospital (frumútgáfa skýrslunnar á ensku)
- Glærur frá kynningu sérfræðinga McKinsey á niðurstöðum sínum (á ensku)