Hagsmunir Íslands á norðurslóðum
Mat á hagsmunum Íslands vegna norðurslóða var kynnt á fundi í háskólanum á Akureyri í dag, 8. september. Markmiðið með útgáfu hagsmunamatsins er að kortleggja helstu hagsmuni Íslands í margslungnu umhverfi norðurslóða. Má þar helst nefna alþjóðapólitísk og efnahagsleg tækifæri sem og áskoranir þeim tengdar – einkum er lúta að umhverfinu.
Ísland og hafsvæðið í kring fellur að langmestu leyti innan skilgreindra marka norðurslóða og hefur Ísland þannig sérstöðu samanborið við aðrar þjóðir sem einnig eru landfræðilega að hluta til innan norðurslóða. Fá ríki hafa jafn mikilla hagsmuna að gæta í hagfelldri þróun norðurslóða. Lega landsins kallar á að hagsmunir Íslands séu ekki skilgreindir landfræðilega þröngt heldur sé litið á norðurslóðir sem heilstætt svæði í vistfræðilegum, efnahagslegum, pólitískum og öryggistengdum skilningi. Æskilegt er að Ísland skapi sér sérstöðu sem norðurslóðaríki og meðal norðurslóðaríkja og setji umhverfismálin í öndvegi – en sérstaða Íslands felst meðal annars í loftslagsvænni orku og sérþekkingu þar að lútandi.
Í matinu var einkum horft til fimm þátta:
• þróunar á alþjóðavettvangi
• hlýnunar loftslags
• atvinnuþróunar og auðlindanýtingar
• samgangna og samgönguinnviða
• öryggismála
Hagsmunamatið er unnið fyrir ráðherranefnd um málefni norðurslóða Ákveðið hefur verið að því verði fylgt eftir með aðgerðaáætlun. Verður þeim hópi sem vann hagsmunamatið falið að semja hana með það að leiðarljósi að tryggja mikilvæga hagsmuni Íslands á norðurslóðum.