Tæplega 80 milljónir til þróunarsamvinnuverkefna á vegum íslenskra borgarasamtaka
Utanríkisráðuneytið veitti í þessum mánuði fimm styrki til þróunarsamvinnuverkefna á vegum íslenskra borgarasamtaka. Alls nema styrkirnir tæplega 80 milljónum króna en hæstu styrkirnir fóru til Rauða krossins á Íslandi vegna langtímaverkefnis til aðstoðar geðfatlaðra í Hvíta-Rússlandi, 31,4 milljónir króna til tveggja ára, og til Hjálparstarfs kirkjunnar sem hlaut 26,4 milljóna króna styrk til þriggja ára vegna langtímaverkefnis til valdeflingar ungs fólks í fátækrahverfum Kampala, höfuðborgar Úganda.
Úthlutanir styrkja voru eftirfarandi:
- 31,4 milljónir til tveggja ára – Rauði krossinn á Íslandi vegna aðstoðar við geðfatlaða í Hvíta-Rússlandi 2017-2018.
- 26,4 milljónir til þriggja ára – Hjálparstarf kirkjunnar vegna valdeflingar ungs fólks í fátækrahverfum Kampala í Úganda.
- 12,2 milljónir – Samband íslenskra kristniboðsfélaga vegna menntaverkefnis í Kenía.
- 7,4 milljónir – Rauði krossinn á Íslandi vegna uppbyggingar í upplýsinga- og samskiptatækni 10 landsfélaga Rauða krossins í lágtekjuríkjum Afríku.
- 1,8 milljónir – Alnæmisbörn vegna vatnsverkefnis verkmenntaskóla CLF (Candle Light Foundation) í Úganda.
Styrkir utanríkisráðuneytis til borgarasamtaka vegna þróunarsamvinnuverkefna eru unnir samkvæmt stefnumiði um slíkt samstarf og verklagsreglum ráðuneytisins. Umsóknarfrestur fyrir verkefni íslenskra borgarasamtaka á sviði þróunarsamvinnuverkefna er 1. júní ár hvert.