Hoppa yfir valmynd
19. september 2016 Utanríkisráðuneytið

Alþingi samþykkir fullgildingu Parísarsamningsins

Íslensk náttúra. - mynd

Alþingi samþykkti í dag að heimila fullgildingu Parísarsamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál með öllum greiddum atkvæðum. Þar með verður Ísland meðal fyrstu 55 ríkjanna sem þurfa að fullgilda samninginn til að hann taki gildi.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd í New York í apríl síðastliðnum, en hann skuldbindur ríki heims til að vinna saman að því að bregðast við loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra mælti svo á Alþingi fyrir fullgildingu samningsins fyrr í þessum mánuði.  

Samningurinn öðlast gildi þegar a.m.k. 55 ríki með 55% af heimslosun hafa fullgilt hann. Nú þegar hafa 28 ríki sem bera ábyrgð á tæplega 40% losunar heimsins fullgilt samninginn, þeirra á meðal Bandaríkin og Kína. 

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis og auðlindaráðherra fagnar ákvörðun Alþingis um að fullgilda samninginn: „Samningurinn markar sannarlega tímamót. Hann gefur okkur von um árangur í loftslagsmálum því í París tókst að finna hina pólitísku sátt sem lengi hafði vantað"

„Það er ánægjulegt að Ísland skuli vera í hópi þeirra ríkja sem staðfesta fullgildingu sína á Allsherjarþingi SÞ nú í vikunni og verði þannig í hópi þeirra 55 ríkja sem verða til þess að samningurinn taki gildi. Ég finn sterkt fyrir áhuga þjóða heims á Parísarsamningnum og hvað loftlagsmálin eru mikilvæg öllum þeim sem láta sig varða velferð í heiminum.  Það er því sérstakt ánægjuefni að Ísland hafi lagt sitt lóð á vogarskálarnar," segir Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.

Aðildarríki Parísarsamningsins setja sér markmið um minnkun losunar, svonefnd landsákvörðuð framlög, og myndar Parísarsamningurinn lagalegan ramma utan um þessar skuldbindingar. Ísland sendi inn sín markmið þann 30. júní 2015 þar sem stefnt er að 40% minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda árið 2030, miðað við 1990, í samstarfi við aðildarríki ESB og Noreg. Endanlegar skuldbindingar Íslands ákvarðast af samningi þessara þriggja aðila. Stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki á næsta ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta