Samstarf Fulbright og utanríkisráðuneytisins um norðurslóðir endurnýjað
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Belinda Theriault, framkvæmdastjóri Fulbright stofnunarinnar, hafa endurnýjað samstarfsamning Fulbright stofnunarinnar og utanríkisráðuneytisins um styrki í norðurslóðafræðum. Með samningnum heldur utanríkisráðuneytið áfram að styrkja komu bandarískra fræðimanna til kennslu og rannsókna á sviði norðurslóðafræða við menntastofnanir á Íslandi.
,,Norðurslóðir eru forgangsmál í utanríkisstefnunni. Við höfum lagt áherslu á að efla miðstöðvar, rannsóknarsetur og menntastofnanir um norðurslóðir á Íslandi í samstarfi við önnur ríki og alþjóðastofnanir. Reynslan af samstarfi okkar við Fulbright hefur verið góð og leitt til þess að öflugir fræðimenn á sviði norðurslóðarannsókna koma til starfa á Íslandi. Endurnýjun samningsins er einnig liður í framlögum Íslands til Fulbright en það samstarf hefur auðgað mjög starf íslenskra háskóla. Ísland nýtur þeirra forréttinda að hafa Fulbright stofnun í landinu," segir Lilja Alfreðsdóttir.
„Það er ánægjulegt að sjá hversu mikla áherslu utanríkisráðherra leggur á vísindasamstarf þegar kemur að málefnum norðurslóða. Nú er komin tveggja ára reynslu á þennan samning, sem var upphaflega tilraunaverkefni til þriggja ára. Það er óhætt að segja að ánægja sé með samstarfið á báða bóga. Markmiðið er að efla vísinda- og fræðastarf og styrkja menntastofnanir á Íslandi í þessum mikilvæga málaflokki,“ segir Belinda Theriault, framkvæmdastjóri Fulbright stofnunarinnar.
Gert er ráð fyrir að árlega komi bandarískur fræðimaður til starfa við íslenskan háskóla í eina önn, þar sem viðkomandi muni stunda kennslu og rannsóknir ásamt því að efla tengsl á milli fræðasamfélagsins vestanhafs og hér á landi.