Tveimur sérfræðingum í málefnum barna bætt við til að sinna sáttameðferð og sérfræðiráðgjöf
Ráðnir hafa verið tveir nýir sérfræðingar í málefnum barna hjá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu til að sinna sáttmeðferð og sérfræðiráðgjöf og sinna nú fjórir sérfræðingar þessum verkefnum á landsvísu. Sáttameðferð er grundvölluð á breytingu á barnalögum sem tók gildi 2013. Í 33. gr. a laganna segir að áður en krafist er úskurðar eða höfðað mál um forsjá, lögheimili, umgengni, dagsektir eða aðför sé foreldrum skylt að leita sátta sem er útlistuð nánar í greininni.
Lagabreytingin fólst í aukinni þjónustu og ráðgjöf fyrir foreldra sem greinir á um forsjá barna sinna og eða umgengni. Markmiðið með ráðgjöf og sáttameðferð á vegum sýslumanns er að aðstoða foreldra við að leysa úr ágreiningsmálum með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Reynslan hefur sýnt að þessi aðstoð sýslumannsembætta og sérfræðinga á þeirra vegum hefur skilað góðum árangri og aukið almennt ánægju foreldra með niðurstöðu mála og leiðir til bættra samskipta foreldra en slíkt er til þess fallið að þjóna hagsmunum barns og bæta líðan þess. Með fyrirkomulaginu er þess frekar að vænta að foreldrar nái, með aðstoð sýslumanns, að leysa ágreiningsmál á þessu sviði í sáttameðferð fremur en að þau fari til dómstóla.
Ráðið var í tvær nýjar stöður til viðbótar þeim tveimur sem fyrir eru þannig framvegis sinnir fjögurra manna sérfræðiteymi þessum verkefnum á landsvísu. Þá hefur skipulagi þessa verkefnis verið breytt í ljósi reynslunnar og komið hefur verið á ákveðnu verklagi. Nýju starfsmennirnir eru:Berglind Gunnarsdóttir Strandberg, MA í ráðgefandi uppeldissálfræði,Ragnheiður Lára Guðrúnadóttir, félagsráðgjafi og Þorleifur Kr. Níelsson, félagsráðgjafi, MA í fjölskyldumeðferð. Fyrir er Þórdís Rúnarsdóttir, félagsráðgjafi og fagstjóri þessara mála hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðniu. Öll eru þau starfsmenn Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem annast mál fyrir öll sýslumannsembætti landsins nema sýslumann á Suðurnesjum. Þórdís, Berglind og Ragnheiður Lára eru með fasta starfsstöð hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu en Þorleifur hjá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra á Akureyri.
Leysir stóran hluta ágreiningsmála
Vonir standa meðal annars til þess að með hinu nýju skipulagi og fjölgun sérfræðinga í málefnum barna sé hægt að sinna innra starfi varðandi málaflokkinn; skipuleggja starfsdaga, fundi, upplýsingaefni og handleiðslu, með það að markmiði að auðvelda samskipti, bæta það starf sem fyrir er og þróa starfshætti. Þá kveður verklagið meðal annars á um að haldið sé til haga tölfræði um umfang sáttameðferðar og sérfræðiráðgjafar.
Rannsóknir þykja sýna að sáttameðferð sé til þess fallin að leysa mikinn hluta ágreiningsmála milli foreldra sem ella þyrfti að leysa með úrskurði eða dómi auk þess að spara tíma og fé, auka ánægju aðila með niðurstöðu máls og leiða til bættra samskipta foreldra.
Haustið 2015 var á vegum innanríkisráðuneytisins kannað hjá embættum sýslumanna hver hefðu verið áhrif þessara breytinga. Til að fá heildstæða mynd af því hvaða áhrif breytingin árið 2013 hafði í för með sér var óskað eftir tölfræðigögnum frá sýslumannsembættum og héraðsdómstólum fyrir árin 2011-2015 og þau borin saman í því skyni að kanna þau áhrif sem sáttameðferð hefur haft á fjölda dómsmála eftir breytinguna og hvort hið breytta fyrirkomulag þjóni tilgangi sínum. Jafnframt voru niðurstöður dómstóla í þessum málum kannaðar með tilliti til þess hvort sáttameðferð og afstaða í útgefnu sáttavottorði hefði haft áhrif á niðurstöðu dómsmála.
Færri dómsmál
Niðurstöður könnunarinnar sýna fækkun dómsmála um forsjá- og lögheimili á landsvísu. Þar sem slíkum málum fækkar í dómskerfinu en fjölgar hjá sýslumannsembættum er hægt að álykta að foreldrum takist í auknum mæli að ná samkomulagi og leysa ágreining sinn með samningi. Í um helmingi mála þar sem sáttavottorð er gefið út hjá sýslumanni er mál höfðað fyrir dómstólum en árið 2015 voru gefin út 80 sáttavottorð hjá sýslumanni vegna forsjár- og eða lögheimilismála en samtals höfðuð 44 mál hjá dómstólum. Gefur þetta til kynna að þótt foreldrum takist ef til vill ekki að ná sátt um öll atriði þjóni sáttameðferð samt sem áður tilgangi sínum í um helmingi mála þar sem sáttavottorð um að sátt hafi ekki náðst er gefið út.