Ráðherra ræðir loftslagsmál og samvinnu norðurskautsríkjanna á Hringborði norðurslóða
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra gerði loftslagsmál og samvinnu norðurskautsríkjanna sérstaklega skil í ræðu sem hún hélt við opnun Hringborðs norðurslóða í Hörpunni í morgun, en hartnær 2.000 þátttakendur taka þátt í Hringborðinu að þessu sinni. Vísaði Lilja til loftslagsbreytinga á norðurslóðum sem eru sérstaklega hraðar og sýnilegar og til mikilvægis þess að stemma stigu við neikvæðum áhrifum þeirra.
Utanríkisráðherra sagði samstarf norðurskautsríkjanna átta til fyrirmyndar og dæmi um hvernig hægt sé að leggja ágreining til hliðar í alþjóðlegum álitaefnum og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum norðurslóðum og íbúum þess til hagsbóta. Hún gerði starfsemi Norðurskautsráðsins að umtalsefni, en ráðið fagnar 20 ára afmæli um þessar mundir. Lilja sagði mikilvægi ráðsins hafa vaxið mjög í áranna rás og vera í dag mikilvægasta vettvang um málefni norðurslóða. Ísland mun taka við formennsku í ráðinu árið 2019.
„Hringborð norðurslóða hefur sannað sig sem heimsins stærsta markaðstorg hugmynda og samræðna í málefnum norðurslóða og framlag ÓIafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta, er sérstaklega þakkarvert. Þingið stækkar ár frá ári og ánægjulegt að það sé haldið hér á Íslandi, sem er vel í sveit sett til að halda viðburði um málefni norðurslóða," segir Lilja.
Í tengslum við Hringborðið fundaði utanríkisráðherra með Robert Papp, sérstökum fulltrúa Bandaríkjastjórnar í málefnum norðurslóða, og voru málefni norðurslóða og öryggismál einkum til umfjöllunar. Þá fundaði Lilja með Nicola Sturgeon, fyrsta ráðherra Skotlands, um norðurslóðir og Evrópumál, þ.m.t. útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.