Ríkið eignast Geysissvæðið
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Hjörleifur B. Kvaran, lögmaður Landeigendafélags Geysis ehf., undirrituðu í dag samning um kaup ríkisins á öllum eignarhluta landeigendafélagsins innan girðingar á Geysissvæðinu.
Ríkið hefur um margra ára skeið átt í viðræðum við sameigendur sína innan girðingar á Geysissvæðinu um hugsanleg kaup ríkisins á eignarhluta þeirra.
Svæðið innan girðingar á Geysi er u.þ.b. 19,9 hektarar að stærð. Innan þess svæðis á ríkið sem séreign u.þ.b.2,3 hektara lands fyrir miðju svæðisins en þar eru hverirnir Geysir, Strokkur, Blesi og Óþverrishola. Það sem eftir stendur eða u.þ.b.17,6 ha. er í sameign ríkisins og Landeigendafélagsins.
Samkvæmt samningnum verður kaupverð eignarhlutans lagt í mat þriggja dómkvaddra matsmanna.
Við undirritun samningsins tók ríkið formlega við umráðum alls lands sameigenda innan girðingar við Geysi. Þar með er ríkið orðið eigandi alls þess svæðis, en ríkið á þegar stóran hlut aðliggjandi landssvæða utan girðingar.
Samningurinn markar tímamót því hann auðveldar heildstæða uppbyggingu á svæðinu í samræmi við niðurstöðu í hugmyndasamkeppni um Geysissvæðið sem haldin var fyrir nokkrum misserum.