Utanríkisráðherra og Ban Ki-moon ræða jafnrétti, norðurslóðir og málefni hafsins
Ástandið í Sýrlandi og straumur flóttamanna, jafnréttismál og málefni norðurslóða og hafsins voru meðal umræðuefna á fundi Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra og Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem staddur er hér á landi. Lilja og Ban fögnuðu því að skilyrðum fyrir alþjóðlegri fullgildingu Parísarsamningsins um loftslagsmál hefur nú verið náð og gengur hann í gildi í næsta mánuði. Ísland var á meðal fyrstu 30 ríkjanna sem fullgiltu samninginn og afhenti utanríkisráðherra Ban Ki-moon fullgildingarskjal Íslands í höfuðstöðvum SÞ í síðasta mánuði.
Á fundi sínum ræddu Lilja og Ban heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun fram til 2030 sem aðildarríki SÞ settu sér 2015 en aðalframkvæmdastjórinn hefur stutt mjög við gerð þeirra og framkvæmd. Megináherslur Íslands í þróunarsamvinnu; jafnrétti, hafið, endurnýjanleg orka og landgræðsla ríma vel við markmiðin og lagði Lilja áherslu á að til þess að þau yrðu að veruleika væri jöfn aðkoma kvenna og karla lykilatriði. Hún áréttaði einnig virðingu fyrir mannréttindum og mikilvægi ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi og sagðist vilja sjá fleiri konur koma að sáttaumleitunum og friðaruppbyggingu á átakasvæðum. "Öll gögn sýna að friður er mun líklegri til að komast á ef konur sitja við samningaborðið og mun líklegra að friður haldist ef konur taka virkan þátt í friðaruppbyggingu. Fleiri konur, meiri friður," segir Lilja.
Þau ræddu einnig mannréttindamál, þar á meðal fullgildingu Íslands á samningi um réttindi fatlaðs fólks sem væri mikið fagnaðarefni. Þau ræddu ýmis málefni SÞ, meðal annars umbætur á starfsemi öryggisráðs SÞ. Ástandið í Sýrlandi og fyrir botni Miðausturlanda var ennfremur til umræðu og greindi utanríkisráðherra frá framlögum Íslands vegna flóttamannavandans, en fyrirséð er að Ísland taki á móti rúmlega 100 flóttamönnum frá Sýrlandi á þessu ári. Þá ræddu þau einnig stöðu mála á Kóreuskaganum.
Áhrif loftslagsbreytinga og norðurslóðir voru megininntak ræðu Ban Ki-moon á Hringborði norðurslóða í Hörpu sem hann ávarpaði í dag. Aðalframkvæmdastjórinn fundaði einnig með fulltrúum Háskóla Sameinuðu þjóðanna á sviði jarðhitanýtingar, sjávarútvegsmála, landgræðslu og jafnréttismála og bar lof á langt og farsælt starf þeirra. Þá flutti Ban ávarp á ráðstefnu um arfleifð og áhrif leiðtogafundarins í Höfða, sem haldin var í Háskóla Íslands.
"Það er sérstaklega ánægjulegt að fá Ban Ki-moon hingað til lands á síðustu mánuðum hans í starfi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Samþykkt heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun og framlag hans til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum bera glöggt merki um framsýni hans og stjórnvisku. Þá hefur Ban alla tíð verið afar öflugur málsvari jafnréttisbaráttunnar og beitt sér mjög í þeim efnum. Hann hefur verið óþreytandi við að færa starfshætti Sameinuðu þjóðanna, þessarar mikilvægustu alþjóðastofnunar heims, til skilvirkari og betri vegar. Það verður ekki auðvelt að feta í fótspor Ban Ki-moon," segir Lilja.