Lítum til Höfðafundarins með hlýju og stolti
„Höfðafundurinn hafði ekki bara mikil áhrif á samskipti austurs og vesturs á tímum kalda stríðsins, heldur markaði hann spor í vitund Íslendinga, sem líta til fundarins með hlýju og stolti," sagði Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra í upphafi alþjóðlegs málþings, sem haldið er í Höfða í tilefni þess að 30 ár eru nú liðin frá leiðtogafundi Bandaríkjanna og Sovétríkjanna í Reykjavík. Á málþinginu, sem erlendir fræðimenn og embættismenn sækja eru áhrif og arfleifð Höfðafundarins til umfjöllunar, en málþingið er haldið á vegum Alþjóðlegu friðarstofnunarinnar (International Peace Institute), með stuðningi utanríkisráðuneytisins og Reykjavíkurborgar.
„Það eru vissulega skiptar skoðanir um Höfðafundinn en hann átti án efa mikilvægan þátt í því að binda endi á kalda stríðið. Þarna ræddu leiðtogar stórveldanna í fyrsta sinn af alvöru um algera útrýmingu kjarnavopna - nokkuð sem friðarhreyfingar og aðrir sem berjast fyrir heimi án kjarnavopna hafa sótt innblástur í allar götur síðan. Þá átti Höfðafundurinn ríkan þátt í að bæta samskipti austurs og vesturs,“ sagði Lilja.
Auk hennar fluttu opnunarávörp Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Terje Rød Larsen, forseti Alþjóðlegu friðarstofnunarinnar, og Ken Adelman, en hann var í samningateymi Ronald Reagan Bandaríkjaforseta á fundinum og skrifaði síðar bók um leiðtogafundinn. Einnig fluttu myndbandsávörp Mikhail Gorbachev, aðalritari Sovétríkjanna á tíma leiðtogafundarins, og George P. Shultz, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.