Hoppa yfir valmynd
12. október 2016 Utanríkisráðuneytið

Samningalota TiSA 19.– 25. september 2016

Samningalota í TiSA-viðræðunum var haldin í Genf 19.-25. september 2016. Af Íslands hálfu tóku Högni S. Kristjánsson,  Þórður Jónsson og Bergþór Magnússon þátt í lotunni. Aðaláherslan var lögð á meginmál hins fyrirhugaðs samnings. Einnig voru haldnir fundir um nokkra af helstu viðaukum samningsins, m.a. á sviðum fjármálaþjónustu, fjarskipta, rafrænna viðskipta (e-commerce), innlendrar hlutdeildar (localisation), gagnsæis (transparency) og um för þjónustuveitenda (mode 4). Þá voru haldnir fundir í smærri hópum um tillögur að öðrum viðaukum. Viðræðurnar þokuðust ágætlega áfram og staðfestu ríkin vilja sinn til að ljúka þeim fyrir lok ársins.

Í umræðum um lausn deilumála var lögð til grundvallar tillaga að samningstexta sem ESB hefur lagt fram um málsmeðferð við lausn ágreiningsmála um túlkun og framkvæmd samningsins.  Unnið verður að því að uppfæra textann í ljósi þeirra athugasemda sem fram komu á fundinum. Meðfylgjandi er hlekkur á umrædda tillögu ESB:

Þá var í umræðum um stofnanaákvæði samningsins lögð til grundvallar tillaga ESB að samningstexta um sameiginlega nefnd TiSA-ríkjanna og um aðild nýrra ríkja að samningnum á síðari stigum sem og um möguleika á að samningurinn verði síðar meir felldur undir regluverk Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).  Meðfylgjandi er hlekkur á tillögu ESB:

Hvað varðar umræður um drög að einstökum viðaukum samningsins má nefna að samkomulag náðist um orðalag viðauka um gagnsæi í tengslum við setningu reglna er varða þjónustuviðskipti. Einnig náðist niðurstaða um orðalag nokkurra ákvæða í öðrum viðaukum sem til umræðu voru, en helstu ágreiningmál eru þó enn útistandandi.  

Hvað varðar fyrirkomulag viðræðnanna að öðru leyti má nefna að aðalsamningamenn landanna hittast nú reglulega á sérstökum fundum til að leita lausna á þeim málum sem ekki hefur náðst samstaða um á sérfræðingastigi. Töluverður fjöldi atriða er enn útistandandi sem sérfræðingar landanna hafa ekki náð að leysa þrátt fyrir ítarlegar umræður og kemur því í auknum mæli til kasta aðalsamningamanna að finna viðeigandi lausnir.

Í lok lotunnar var uppfærð vinnuáætlun til loka ársins. Gert er ráð fyrir því að sérfræðingafundir verði haldnir á næstu vikum um einstaka samningstexta sem hvað skemmst eru komnir. Í kjölfarið er gert ráð fyrir því að aðalsamningamenn TiSA-ríkjanna fundi í Washington 17.-18. október nk., þar sem þeir muni fara yfir helstu útistandandi mál og setja fram leiðarvísi að því hvernig ljúka megi viðræðunum fyrir árslok. Þá er stefnt að því að lokatilboð ríkjanna að skuldbindingaskrám verði lögð fram 21. október nk. Fyrirhugað er að næsta samningalota verði haldin dagana 2.-10. nóvember nk. og síðan verði haldin samningalota dagana 28. nóvember – 4. desember nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta