Aðgerðir til að flýta afgreiðslu umsókna um hæli
Fyrstu níu mánuði ársins sóttu 560 einstaklingar um vernd hér á landi og á undanförnum sex vikum hafa rúmlega 300 manns sótt um vernd. Útlendingastofnun afgreiddi 486 umsóknir fyrstu níu mánuði ársins. Ef taldir eru þeir sem sótt hafa um nú í október er fjöldi umsækjenda um vernd alls 684.
Í september sóttu 176 manns um alþjóðlega vernd og gerir Útlendingastofnun nú ráð fyrir að 800 til 1000 umsóknir muni berast stofnuninni á árinu. Fjölgunin hefur aukið mjög álagið á allt hæliskerfið. Sjá nánari tölfræði á vef Útlendingastofnunar.
Vegna stöðugrar fjölgunar umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi vinnur innanríkisráðuneytið að margvíslegum aðgerðum í samvinnu við Útlendingastofnun og fleiri aðila í því skyni að auka málshraða. Það er mikilvægt svo unnt sé að þjóna sem best þeim sem eru á flótta undan stríðsátökum eða ofsóknum og eiga af þeim sökum rétt á vernd samkvæmt gildandi lögum og alþjóðasamningum.
Um 560 manns í umsjá Útlendingastofnunar og sveitarfélaga
Nú eru um 360 manns í umsjá Útlendingastofnunar og um 200 í umsjá þriggja sveitarfélaga, eða alls um 560 manns. Torvelt hefur reynst að finna húsnæði fyrir þennan fjölda. Til að bregðast við þeim vanda hefur verið tekið í gagnið tímabundið neyðarúrræði á vegum Útlendingastofnunar og Rauða krossins í húsnæði að Krókhálsi í Reykjavík, þar sem Lögregluskóli ríkisins var til húsa. Mikill kostnaður fylgir þessum fjölda umsókna en ráðgert er að heildarkostnaður svonefnds hælisliðar verði um 1,6 milljarðar króna á árinu. Þá er ótalinn kostnaður við rekstur Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála.
Um helmingur umsækjenda um vernd hér á landi er frá ríkjum á vestanverðum Balkanskaganum. Synjunarhlutfall umsókna hefur verið nálægt 100% í löndum Evrópu, líkt og hér á landi. Umsóknir fólks frá þessum ríkjum eru því almennt metnar tilhæfulausar. Það eru einkum ríkisborgarar frá Albaníu og Makedóníu sem um er að ræða. Heildarfjöldi umsókna frá þessum löndum er 280 eða um helmingur allra umsókna. Þetta er mun hærra hlutfall en á hinum Norðurlöndunum.
Ýmsar ástæður kunna að vera fyrir því að mikill fjöldi umsókna er frá ríkisborgurum þessara landa. Reynslan bendir til þess að langur málsmeðferðartími vegna hælisumsókna hjá stjórnvöldum sé einn þeirra þátta sem hefur áhrif á fjölda tilhæfulausra umsókna. Því lengri sem málsmeðferðartími er því fleiri umsóknir eru lagðar fram.
Hraðari málsmeðferð hjá Útlendingastofnun og kærunefnd
Til að hraða málsmeðferð hefur m.a. auknu fjármagni verið veitt til Útlendingastofnunar. Þá hafa verið gerðar ráðstafanir til að auka skilvirkni í málsmeðferð hjá stofnuninni. Þær hafa borið góðan árangur og leitt til þess að Útlendingastofnun nær nú, þrátt fyrir aukið álag, að afgreiða mál þeirra sem fá forgangsmeðferð á 4 til 14 dögum. Ákvörðun um að mál fari í forgangsmeðferð er tekin að undangengnu mati á aðstæðum hælisleitenda.
Með lagabreytingum sem samþykktar voru síðastliðið vor og tóku þegar gildi voru einnig gerðar ýmsar breytingar á kærunefnd útlendingamála til að hraða meðferð mála þar auk þess sem fjárveitingar til nefndarinnar voru auknar verulega. Nefndarmönnum var fjölgað og nefndinni gert fært að starfa í þremur deildum, auk þess sem formanni og varaformanni voru veittar heimildir til að afgreiða ákveðin mál. Ráðuneytið hefur lagt áherslu á að þær lagabreytingar sem gerðar voru vorið 2016 og var ætlað að auka málshraða hjá nefndinni beri tilætlaðan árangur. Kærunefnd útlendingamála vinnur nú að því að stytta frekar málsmeðferðartíma fyrir nefndinni. Vonir standa til þess að það gangi eftir fyrir áramót.
Réttaráhrifum ekki frestað
Vegna gríðarlegs álags sem nú er á kerfinu er nauðsynlegt að bregðast strax við, ekki síst til að sporna við frekari fjölgun tilhæfulausra umsókna hér á landi. Tímabundin breyting á útlendingalögum sem var samþykkt á Alþingi í síðustu viku er mikilvægur liður í þessum aðgerðum. Samkvæmt nýsamþykktum lögum gildir sú regla fram til áramóta að kæra til kærunefndar útlendingamála á ákvörðunum Útlendingastofnunar í svokölluðum forgangsmálum frestar ekki réttaráhrifum. Þetta hefur í för með sér að vísa má fólki strax úr landi eftir synjun Útlendingastofnunar. Reglan á eingöngu við ef umsækjandi kemur frá öruggu ríki og bersýnilegt er að mati Útlendingastofnunar að hann eigi ekki rétt á vernd. Mikilvægt er að árétta að þessi breyting hefur ekki áhrif á rétt fólks til að kæra ákvarðanir Útlendingastofnunar.
Ýmsar fleiri aðgerðir
Ýmsar fleiri aðgerðir má nefna sem flýta og bæta málsmeðferð útlendingamála og framkvæmd flutnings þeirra heim sem synjað er um vernd. Nefna má að umsækjendum er boðin aðstoð við sjálfviljuga heimför á vegum Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar (IOM). Þá vinna Útlendingastofnun og ríkislögreglustjóri að áætlun um skjótan flutning fólks úr landi eftir synjun.
Ráðuneytið hefur væntingar til þess að þær umbætur sem unnið hefur verið að á lögum og framkvæmd allri leiði til bættrar málsmeðferðar. Ráðuneytið heldur nú vikulega fundi með öllum aðilum er koma að stjórnsýslu og framkvæmd í málefnum hælisleitenda. Á þeim fundum er farið yfir stöðu mála hjá einstökum aðilum, tölfræði og úrbætur sem geta stuðlað enn frekar að því að markmið stjórnvalda um skilvirka stjórnsýslu í útlendingamálum gangi eftir.