Ráðherra veitir viðurkenningu fyrir matarsóunarverkefni
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, heimsótti í dag Grunnskólann í Þorlákshöfn og kynnti sér þar matarsóunarverkefni skólans. Við sama tækifæri var hún viðstödd undirritun samstarfssamnings um Þorláksskóga.
Grunnskólinn í Þorlákshöfn hefur náð miklum árangri í baráttunni gegn matarsóun en á einu ári minnkaði matarúrgangur í mötuneyti skólans um helming. Þetta var gert með breytingu á fyrirkomulagi í matmálstímum á þann hátt að börnin skammta sér sjálf matinn í stað þess að aðrir velji fyrir þau það sem sett er á diskana og í hvaða magni.
Yngstu börnin sungu fyrir gesti sína.
Nemendur og starfsfólk skólans vinna ötullega að umhverfismálum í skólanum og hafa komið sér upp metnaðarfullu sorpflokkunarkerfi, þar sem nánast allur úrgangur í skólanum er flokkaður. Skólinn er þátttakandi í verkefninu Skólar á grænni grein og stefnir að því að flagga grænfána á næsta ári. Fékk ráðherra góða kynningu hjá umhverfisnefnd skólans og leiðsögn um skólann auk þess sem yngstu börn skólans sungu skólasönginn fyrir gestina. Loks afhenti ráðherra nemendum og starfsfólki sérstaka viðurkenningu fyrir baráttu þeirra gegn matarsóun í mötuneyti skólans.
Samningur um Þorláksskóga handsalaður.
Í lok heimsóknar ráðherra í grunnskólann undirrituðu fulltrúar Landgræðslu ríkisins, Skógræktarinnar og Sveitarfélagsins Ölfuss samstarfssamning um Þorláksskóga, sem ræktaðir verða á Hafnarsandi norðan og vestan Þorlákshafnar. Markmið verkefnisins er endurheimt vistkerfis, binding kolefnis og að til verði útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlisins. Auk samstarfsaðilanna þriggja verður leitað til fjölmargra samtaka og einkaaðila innan og utan svæðisins með aðkomu að verkefninu.