Hoppa yfir valmynd
27. október 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ákveðið að hefja vinnu vegna tilnefningar Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO

Vatnajökulsþjóðgarður
Úr Vatnajökulsþjóðgarði

Ríkisstjórnin samþykkti á dögunum tillögu umhverfis- og auðlindaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra um að hefja vinnu við tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs og nokkurra aðliggjandi svæða á heimsminjaskrá UNESCO. Stefnt er að því að umsókn vegna tilnefningarinnar verði komið til skrifstofu heimsminjasamningsins í janúar 2018.

Í skýrslu verkefnisstjórnar, sem ríkisstjórnin skipaði í mars á þessu ári, er lagt til að svæði sem tekur til Vatnajökulsþjóðgarðs ásamt nokkrum aðliggjandi svæðum verði tilnefnt á heimsminjaskrá UNESCO. Innan þessa svæðis er heiti reiturinn undir landinu, rekbeltið sem gengur þvert í gegnum landið og samspil eldvirkni og jökuls sem m.a. hefur í för með sér að hér eru fjölbreyttari gosminjar en annars staðar á jörðinni.

Svæði utan marka þjóðgarðsins sem lagt er til að verði með í tilnefningunni eru Herðubreiðarfriðland og friðland í Lónsöræfum. Verkefnisstjórnin leggur til að eftirfarandi þjóðlendur og ríkisjarðir verði friðlýstar sem hluti af Vatnajökulsþjóðgarði, Ærfell, Fjall, Breiðamörk, vestanvert Jökulsárlón og svæðið vestan þess og Sandfell og verði þar með hluti af tilnefningunni.

Við gerð skýrslunnar var leitað til helstu sérfræðinga á sviði jarðvísinda til þess að draga fram og afmarka jarðfræðilega ferla sem talin eru gefa svæðinu einstakt gildi á heimsvísu. Einnig hafði verkefnisstjórnin samráð við átta hlutaðeigandi sveitarstjórnir, svæðisráð þjóðgarðsins og þjóðgarðsverði.

Nú tekur við vinna við undirbúning umsóknar um tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO, sem er umfangsmikið verkefni þar sem um er að ræða stórt og fjölbreytt svæði. Stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki á árinu 2017.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta