Staða mannréttindamála á Íslandi tekin fyrir á fundi hjá Sameinuðu þjóðunum
Staða mannréttinda á Íslandi verður tekin fyrir á fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf á morgun, þriðjudag. Sendinefnd Íslands leggur þar til grundvallar skýrslu um stöðu mála og greinir frá því til hvaða aðgerða hefur verið gripið í kjölfar síðustu úttektar mannréttindaráðsins þar sem lögð voru fram allmörg tilmæli.
Fundurinn stendur milli kl. 13.30 og 17 að íslenskum tíma og verður unnt að fylgjast með honum í streymi á netinu .
Sendinefnd Íslands skipa fulltrúar innanríkisráðuneytis, velferðarráðuneytis, utanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og fyrir nefndinni fer Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis. Í upphafi fyrirtökunnar flytur Ragnhildur greinargerð Íslands og í framhaldinu gefst aðildarríkjum SÞ sem fulltrúa eiga á fundinum kostur á að spyrja nánar um mannréttindamál á Íslandi. Hafa fulltrúar um 70 ríkja þegar skráð sig á mælendaskrá til að gera athugasemdir eða spyrja nánar um stöðuna. Í kjölfarið munu íslensk stjórnvöld taka afstöðu til tilmæla sem fram koma í þeim umræðum. Hefur Ísland þriggja mánaða frest til að bregðast við þeim tilmælum.