25 milljónir til Neyðarsjóðs SÞ vegna Haítí og Sýrlands
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hefur ákveðið að veita 25 milljónum króna til Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna, m.a. vegna hamfaranna á Haiti og afleiðinga átakanna í Sýrlandi. Fyrr á árinu veittu íslensk stjórnvöld 10 milljón króna framlag til neyðarsjóðsins. Með þessu framlagi leggja íslensk stjórnvöld sitt af mörkum til að mæta mikilli og sívaxandi þörf fyrir mannúðaraðstoð en mjög er lagt að ríkjum heims að hækka framlög til Neyðarsjóðsins.
Tilgangur Neyðarsjóðs SÞ er að tryggja að neyðar- og mannúðaraðstoð berist fórnarlömbum náttúruhamfara og átaka tímanlega og á sem skilvirkastan hátt. Í kjölfar afleiðinga fellibylsins Matthew sem gekk yfir Haítí fyrr í mánuðinum, hefur sjóðurinn þegar veitt fimm milljónum Bandaríkjadala til mannúðaraðstoðar og 8 milljón dala lán til Barnahjálpar SÞ til að berjast gegn kólerufaraldri í landinu. Samkvæmt sameiginlegu mati stofnana Sameinuðu þjóðanna á Haítí er þörf á allt að 119 milljónum dala í mannúðaraðstoð fyrir 750 þúsund manns næstu þrjá mánuðina. Þá hefur Neyðarsjóður SÞ veitt há framlög til mannúðaraðstoðar vegna átakanna í Sýrlandi og til neyðaraðstoðar í Chad, Mið-Afríkulýðveldinu og Jemen.
Þeim sem þarfnast mannúðar- og neyðaraðstoðar hefur fjölgað mjög á síðustu árum og gert er ráð fyrir að sú tala muni halda áfram að hækka. Fórnarlömb vopnaðra átaka og hamfara eru fleiri en nokkru sinni. Í lok september sl. hafði neyðarsjóðurinn veitt 360 milljónum dala í mannúðaraðstoð í 43 löndum þar sem ástandið var talið alvarlegast. Í septembermánuði einum var 69 milljónum dollara veitt til aðstoðar í tíu löndum.