Ný reglugerð um lyfjaauglýsingar
Heilbrigðisráðherra hefur sett nýja reglugerð um lyfjaauglýsingar þar sem meðal annars eru sett skýr skilyrði um hvaða upplýsingar beri að birta í auglýsingum um lausasölulyf. Markmiðið er að tryggja að þær upplýsingar sem mikilvægastar eru varðandi viðkomandi lyf og notkun þess skili sér til neytenda.
Ákvæði reglugerðarinnar eru í samræmi við ákvæði þar að lútandi tilskipanir Evrópuþingsins um bandalagsreglur um lyf sem ætluð eru mönnum annars vegar og dýrum hins vegar og um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu.
Í 6. gr. reglugerðarinnar er annars vegar skerpt á þeim upplýsingum sem þurfa að birtast í auglýsingum um lausasölulyf og hins vegar dregið verulega úr umgangi þeirra upplýsinga sem þarf að birta eða lesa upp með hverri auglýsingu. Eins og auglýsingar hafa verið birtar til dæmis í sjónvarpi til þessa hafa notendur vart átt möguleika á að meðtaka nema brot þeirra upplýsinga sem settar eru fram. Viðamiklar upplýsingar, smátt letur og skammur birtingartími á skjánum hefur gert þetta að verkum.
Í lyfjaauglýsingum fyrir almenning skulu samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar koma fram a.m.k. eftirfarandi upplýsingar:
-
Heiti lyfs, ásamt samheiti ef lyfið inniheldur aðeins eitt virkt efni
-
Lyfjaform
-
Ábending eða ábendingar lyfs, þ.e. í hvaða tilgangi leyfilegt er að nota lyfið
-
Nauðsynlegar upplýsingar fyrir rétta notkun lyfsins
Auk þessa skal birta eftirfarandi skilaboð orðrétt: „Lesið vandlega upplýsingar á umbúðum og fylgiseðli fyrir notkun lyfsins. Leitið til læknis eða lyfjafræðings sé þörf á frekari upplýsingum um áhættu og aukaverkanir. Sjá nánari upplýsingar um lyfið á www.serlyfjaskra.is.“
Reglugerðin sem fylgir hér með öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum.