Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tækifæri til að draga úr losun frá landbúnaði

Heyskapur í Landsveit - myndHugi Ólafsson
Heyskapur í Landsveit

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur gefið út skýrslu með greiningu á losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði, en skýrslan er hluti af verkefni innan sóknaráætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum.

Í skýrslunni kemur fram að ýmis tækifæri eru til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði t.d. með vinnslu metans úr búfjáráburði og með því að draga úr eldsneytisnotkun. Einnig kemur fram að frekari rannsókna er þörf til að leggja mat á umfang losunar gróðurhúsalofttegunda úr beitilandi.

Losun gróðurhúsalofttegunda sem tengist landbúnaði má skipta í tvo meginþætti. Annars vegar er um að ræða losun úr framræstum jarðvegi sem notaður er til ræktunar s.s. túnræktar. Hins vegar er losun sem verður vegna annarra þátta innan hvers býlis. Þar af vega þyngst losun metans vegna innyflagerjunar búfjár og losun vegna áburðarnotkunar. Við það bætist losun vegna geymslu og meðhöndlunar búfjáráburðar og losun vegna eldsneytisnotkunar.

Greining Landbúnaðarháskólans var unnin fyrir verkefnisstjórn um loftslagsvænni landbúnað og er liður í samstarfsverkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Bændasamtaka Íslands og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um gerð vegvísis um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði.

Næstu skref í verkefninu er að skoða betur mögulegar lausnir til að draga úr losun og hvar þekkingu vantar, en kolefnisbókhald sem tengist landbúnaði og landnotkun er um margt flóknara en á öðrum sviðum. Einnig er gert ráð fyrir að leitað verði samstarfs við bændur um greiningu á losun frá einstökum búum og möguleikum til að draga úr henni.

Greining á losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði (pdf-skjal)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta