Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Græn nýsköpun lykill að árangri

Umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpaði loftslagsfund Sameinuðu þjóðanna í Marrakech í Marokkó í kvöld.

Nú er kominn tími til að efna loforð Parísarsamningsins í loftslagsmálum, sagði Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra í ræðu sinni í dag á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í Marrakech í Marokkó. Allir þyrftu þar að leggja lóð á vogarskálarnar: stjórnvöld, atvinnulíf, vísindaheimurinn og almenningur. Nýsköpun í loftslagsvænni tækni og lausnum væri nauðsynleg til að ná settu marki.

Fundurinn í Marrakech er fyrsti alþjóðlegi ráðherrafundurinn um loftslagsmál eftir að Parísarsamningurinn gekk í gildi 4. nóvember sl. Um 110 ríki, þar á meðal Ísland, hafa fullgilt samninginn.

Ráðherra sagði að hrein orka væri mikilvæg og þörf á hnattrænu átaki í nýtingu endurnýjanlegrar orku. Hún nefndi tilraunaverkefni Orkuveitu Reykjavíkur o.fl. á Hellisheiði, þar sem koldíoxíði er dælt í jarðlög, þar sem það breytist í steindir og binst til frambúðar í jarðlögum. Þar væri gróðurhúsalofttegundum breytt í grjót, en einnig væri mikilvægt að binda kolefni í trjám og jarðvegi með skógrækt og aðgerðum gegn landeyðingu.

Ráðherra gerði áhrif loftslagsbreytinga á hafið að umtalsefni og fagnaði aukinni athygli á þann þátt í loftslagsumræðunni. Hreinni skipatækni væri hluti af lausninni og mikilvægt að hlúa að henni á Íslandi og á heimsvísu.

Auk loftslagsvænni tækni væri nauðsynlegt að huga að daglegu lífi, svo sem með að draga úr matarsóun, til að ná settu marki. Jafnrétti kynjanna og virk þátttaka kvenna væri nauðsynleg til að ná árangri í loftslagsmálum.

Ræða ráðherra í heild (á ensku) (pdf-skjal).

"" Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, átti m.a. tvíhliða fund með Paulu Bennett, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur sótt fundi ráðherra og aðra viðburði á aðildarríkjaþinginu í Marrakech og átti m.a. tvíhliða fund með Paulu Bennett, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands. Þar kom fram að aðstæður í ríkjunum væru að mörgu leyti líkar hvað loftslagsmál varðar. Bæði ríkin nýta jarðhita og hafa hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku, bæði horfa til lausna varðandi losun frá landbúnaði og landnotkun og bæði hafa samþykkt að berjast gegn niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti. Samþykkt var að koma á samvinnu varðandi loftslagsvænar lausnir í landbúnaði og ræða frekar annað samstarf í loftslagsmálum.

Íslenskar kynningar um hafið og niðurdælingu koldíoxíðs

Sérstök dagskrá var tileinkuð umræðu um afleiðingar loftslagsbreytinga á hafið á sérstökum degi hafsins (Oceans Action Day), þar sem fulltrúi utanríkisráðuneytisins flutti erindi um mikilvægi uppbyggingar á þekkingu og tækni í ríkjum sem byggja afkomu sína á hafinu.

Ísland hélt tvo kynningarviðburði á norrænum bás á ráðstefnunni í Marrakech þar sem annars vegar var fjallað um hafið og hins vegar um jarðhita.

Á viðburði um hafið kynnti fulltrúi sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hið mikilvæga hlutverk skólans við að byggja upp þekkingu á loftslagsvænni sjávarútvegi. Fulltrúar frá Seychelles-eyjum og Máritíus ræddu nýsköpun og tækifæri sem tengjast hafinu, en þessi tvö eyríki eru meðal þeirra ríkja sem þegar takast á við alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga á hafið.

Fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur kynntu alþjóðlegt verkefni um bindingu á jarðhitagasi í grjót við Hellisheiðarvirkjun. Samstarfið leiddi til þróunar á nýrri aðferð sem er til muna hraðvirkari og ódýrari en hefðbundnar aðferðir og er unnt að nýta víðsvegar um heim. Verkefnið hefur vakið mikla athygli í vísindaheiminum og loftslagsumræðunni.

Fundirnir voru vel sóttir. Hægt er að sjá kynningarfundina á eftirfarandi vefsíðu:

http://www.norden.org/en/theme/new-nordic-climate-solutions/cop22/events/troll-turned-to-stone-innovation-in-geothermal-energy-ministry-of-foreign-affairs-iceland

http://www.norden.org/en/theme/new-nordic-climate-solutions/cop22/events/one-earth-one-ocean-ministry-of-foreign-affairs-iceland

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta