Nýjar reglur um heimagistingu – heimilt að leigja út íbúð í allt að 90 daga
Með nýjum lögum um heimagistingu verður einstaklingum heimilt að leigja út heimili sitt og aðra fasteign sem viðkomandi hefur til persónulegra nota í allt að 90 daga á ári án þess að þurfa að sækja um rekstrarleyfi. Markmið nýrra reglna er að einfalda umsýslu og mæta nýjum veruleika í ferðaþjónustu sem orðið hefur til með auknu framboði á gistirými til ferðamanna á grundvelli hins svokallaða deilihagkerfis. Nýju lögin taka gildi 1. janúar 2017 og í dag var meðfylgjandi reglugerð send til birtingar í Stjórnartíðindum.
Með þessum nýju reglum er verið að bregðast við þróun í gistiframboði og miklum fjölda leyfislausra gistinga. Þá er verið að skýra betur mörkin milli gististarfsemi í atvinnuskyni og tímabundinnar leigu einstaklinga gegnum deilihagkerfið.
Áhrif breytinganna munu sjást m.a. í betri yfirsýn yfir gistiframboð, bættri skráningu, betri skilum skatttekna og einfaldara regluverki.
Heimagisting verður valkostur fyrir þá, sem vilja leigja út lögheimili sitt eða aðra fasteign sem það hefur til persónulegra nota (t.d. sumarbústað) til styttri tíma. Sá sem hyggst leigja út samkvæmt heimagistingu má gera það að hámarki í 90 daga á almanaksárinu. Einstaklingur sem hyggst leigja út lögheimili sitt t.d. í 60 daga getur því leigt sumarhús sitt í allt að 30 daga á sama ári. Jafnframt er það gert að skilyrði að tekjur einstaklings af leigu fari ekki yfir 2 milljónir kr. á ári. Einstaklingar sem ætla að bjóða upp á heimagistingu þurfa að skrá sig hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og staðfesta m.a. að þeir uppfylli ákveðnar kröfur um brunavarnir, ástand eignar og samþykkt hennar sem íbúðarhúsnæðis. Jafnframt fá þeir úthlutað sérstöku skráningarnúmeri sem ber að birta og nota í allri markaðssetningu. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu mun annast eftirlit með heimagistingu.
Samkvæmt gildandi lögum þarf starfsleyfi heilbrigðisnefndar til að leigja út samkvæmt heimagistingu. Umhverfisráðherra hefur kynnt frumvarp um breytingu á lögum þar sem gert er ráð fyrir að afnema starfsleyfi vegna heimagistingar sem mun þá enn frekar einfalda slíka starfssemi.
Ef íbúð er leigð út í fleiri daga en 90 á ári þá fellur slík starfsemi undir reglur um gistiheimili og flokkast sem atvinnurekstur.
Til að brúa bilið fyrir þá sem eru nú þegar með rekstrarleyfi fyrir heimagistingu samkvæmt eldri lögum halda öll útgefin leyfi gildi sínu út gildistíma þeirra. Má gera ráð fyrir því að sumir sem reka heimagistingu samkvæmt eldri lögum muni í framhaldinu sækja um rekstrarleyfi fyrir gistiheimili í flokki II. Í lögunum eru gerðar minni kröfur til aðbúnaðar ofl. fyrir minni gistiheimili þar sem leigð eru út 5 eða færri herbergi eða þar sem rými er fyrir 10 einstaklinga eða færri.
- Reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald
- Lög um breytingu á lögum um veitingastaði,gististaði og skemmtanahald nr. 67/2016
_________________________________________
Spurningar og svör varðandi heimagistingu:
Hvað má leigja fasteign út í marga daga þannig að hún falli undir reglur um heimagistingu?
Svar: 90 daga á ári.
Hvað má leigja út margar fasteignir?
Svar: Tvær eignir.
Hvað þarf að gera ef leigja á út herbergi, íbúð eða sumarbústað í heimagistingu?
Svar: Skrá viðkomandi eign hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og fá starfsleyfi hjá heilbrigðisnefnd. Eignin fær svo úthlutað skráningarnúmeri sem þarf að nota við markaðssetningu.
Hver sér um eftirlit með heimagistingu?
Svar: Lögreglustjórar hafa áfram eftirlit með framkvæmd laganna skv. 21. gr. laganna. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur hins vegar eftirlit með heimagistingu og mun hann til dæmis fylgjast með því að skráningarnúmer sé notað á þeim miðlum sem notaðir eru til að auglýsa heimagistingu.
Hvað þarf að gera ef leyfi fyrir heimagistingu er þegar fyrir hendi á grundvelli eldri laga og ætlunin er að leigja eignina meira en 90 daga á ári?
Svar: Leyfið gildir út gildistímann. Þegar það rennur út þarf að sækja um rekstrarleyfi fyrir gististað í flokki II.
Hvað gerist ef eign er leigð út í heimagistingu án þess að hún hafi verið skráð hjá Sýslumanni?
Svar: Þá verður lögð á stjórnvaldssekt sem getur numið allt að einni milljón króna.
Er mikilvægt að nota skráningarnúmerið í öllum auglýsingum?
Svar: Já, það er lögbundin skylda. Brot á því getur valdið stjórnvaldssekt.