Hoppa yfir valmynd
30. desember 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Samningur um sérhæfð hjúkrunarrými á Droplaugarstöðum

Fulltrúar Sjúkratrygginga Íslands og Reykjavíkurborgar undirrituðu í gær samning um rekstur þriggja sértækra hjúkrunarrýma á Droplaugarstöðum. Rýmin eru ætluð fólki með þörf fyrir mikla og sérhæfða hjúkrun og umönnun, til dæmis vegna meðferðar í öndunarvél.

Á vegum heilbrigðisráðherra og borgarstjórans í Reykjavík hefur um skeið verið unnið að því sameiginlega að finna ákjósanlega leið til að skapa aðstæður á hjúkrunarheimili fyrir einstaklinga sem þarfnast sérhæfðrari þjónustu en unnt er að veita á almennum hjúkrunarheimilum. Niðurstaðan varð að útbúa þessa aðstöðu á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum sem Reykjavíkurborg rekur.

Samhliða undirritun samnings um rekstur rýmanna var undirritað samkomulag milli ráðuneytisins og borgarinnar um að ráðuneytið fjármagni nauðsynlegar húsnæðisbreytingar og kaup á nauðsynlegum búnaði og tækjum. Rekstarkostnaður rýmanna þriggja verður greiddur úr ríkissjóði.

Miðað er við að tvö rýmanna verði ætluð fólki sem metið hefur verið í þörf fyrir dvöl í hjúkrunarrými til langframa en að þriðja rýmið verði nýtt fyrir einstaklinga sem þurfa á tímabundinni dvöl að halda eða hvíldarinnlögn sem stuðning við búsetu viðkomandi á eigin heimili.

Reiknað er með að íbúar sem flytjast í varanlegu rýmin tvö séu einstaklingar sem að öðrum kosti þyrftu að dvelja til langframa á Landspítalanum.

Til að meta gagnsemi og árangur þessarar sértæku þjónustu verður gerð úttekt á verkefninu að sex mánuðum liðnum. Úttektin verður lögð til grundvallar við mat á faglegum og fjárhagslegum ávinningi verkefnisins. Stefnt er að því að fyrstu einstaklingarnir geti nýtt sér þessa þjónustu innan þriggja mánaða.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta