Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2017 Utanríkisráðuneytið

Atlantshafsbandalagið stendur sterkt og sameinað

Guðlaugur Þór ræðir við James Mattis. - mynd

Í dag lauk tveggja daga fundi varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins þar sem rætt var um tengslin vestur um haf, öryggisáskoranir og aukinn varnarviðbúnað við austur- og suðurjaðar bandalagsins, og mikilvægi þess að aðildarríki auki framlög sín til öryggis- og varnarmála.  Nýr varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, James Mattis, áréttaði að varnarskuldbindingar Bandaríkjanna gagnvart bandalaginu stæðu óhaggaðar og hvatti bandalagsríkin jafnframt til að leggja meira af mörkum til sameiginlegra varna.

„Skilaboðin frá Mattis voru skýr og afar mikilvæg. Framlag Íslands hefur skipt máli í gegnum tíðina og með skarpari stefnumótun í nýrri þjóðaröryggisstefnu og aukinni borgarlegri þátttöku í störfum Atlantshafsbandalagsins höldum við áfram að leggja okkar af mörkum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sem sat fundinn.

Ráðherrarnir ræddu um viðbrögð við margvíslegum öryggisáskorunum við suðurjaðar Evrópu sem einkennast af óstöðugleika og átökum. Verið er að auka stuðning við samstarfsríki á svæðinu, efla eftirlit og styrkja viðbragðsgetu þeirra. Ráðherrarnir fóru einnig yfir vinnu við að efla varnarviðbúnað og viðveru Atlantshafsbandalagsins, meðal annars í austanverðri Evrópu, baráttuna gegn hryðjuverkum og eflingu netvarna og styrkingu almannavarna.  Samstaða var um að aukinn varnarviðbúnaður yrði að haldast í hendur við aðgerðir til að draga úr spennu og byggja upp traust í samskiptum við Rússland. Ráðherrafundinum lauk með fundi í NATO-Georgíunefndinni þar sem farið var yfir samstarfsáætlun bandalagsins við Georgíu sem ætlað er að styðja við umbætur í öryggis- og varnarmálum í landinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta