Skýrsla nefndar Evrópuráðsins um kynþáttfordóma og umburðarleysi
ECRI; nefnd Evrópuráðsins um kynþáttafordóma og umburðarleysi, birti í gær skýrslu um stöðu þessara mála hér á landi, með ábendingum hvað vel hefur verið gert og hverju er áfátt. Nefndin er sjálfstæður eftirlitsaðili á sviði mannréttinda.
Þetta er fimmta skýrsla ECRI um Ísland en fyrsta skýrslan kom út árið 1997. Auk umfjöllunar um kynþáttahatur og málefni innflytjenda er nú í skýrslu ECRI fjallað í fyrsta sinn um málefni hinsegin fólks.
Fulltrúar nefndarinnar komu til Íslands í apríl 2016 héldu svokallaða fyrirtöku. Við fyrirtökuna var fundað með félagasamtökum, stofnunum og hlutaðeigandi ráðuneytum til að afla upplýsinga til undirbúnings skýrslunni sem birt var í gær. Meðal annars voru haldnir fundir með innflytjendaráði, flóttamannanefnd, fjölmiðlanefnd, Útlendingastofnun, Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúa frá transteymi Landspítalans. Á þessum fundum var farið yfir helstu breytingar undanfarinna fimm ára á Íslandi í þessum efnum, eða frá því að síðasta skýrsla ECRI um Ísland var birt.
Meginniðurstaða skýrslunnar er að staðan hér á landi í þeim málum sem um er fjallað sé álmennt góð, ýmsar framfarir hafi orðið á undanförnum árum, en sitthvað þurfi þó að gera betur. Lýst er áhyggjum af aukinni hatursumræðu hér á landi í garð minnihlutahópa og bent á að hatursumræða sé yfirleitt fyrsta skrefið að líkamlegu ofbeldi.
Meðal atriða sem ECRI dregur fram um jákvæða þróun frá árunum 2011 er aukin áhersla lögreglunnar á hatursglæpi og setning laga um málefni innflytjenda.
Nokkrar breytingar hafa átt sér stað til úrbóta frá því að fulltrúar ECRI héldu fyrirtökuna vegna umfjöllunar sinnar fyrir tæpu ári. Má þar helst nefna framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem samþykkt var á Alþingi í september 2016 og byggist meðal annars á fyrri ábendingum ECRI nefndarinnar.
Í skýrslu ECRI er einnig bent á að jafna þurfi þá þjónustu sem flóttafólki stendur til boða, óháð því hvort það komi til landsins sem kvótaflóttafólk eða á eigin vegum. Fyrsta skrefið í þessa átt var tekið með samningi velferðarráðuneytisins við Rauða krossinn í byrjun þessa árs.
ECRI bendir á að hér á landi skorti heildarlöggjöf sem banni mismunun og einnig að ekki sé hér sérstök stofnun sem vinni gegn kynþáttafordómum og hatri. Nú er stefnt að því að leggja fram á yfirstandandi þingi lagafrumvarp um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna og frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði. Verði ofangreind frumvörp að lögum þá verður komið til móts við ofangreindar ábendingar. Ekki er þó fyrirhugað að setja á stofn sérstaka stofnun sem vinnur gegn kynþáttafordómum en hins vegar er fyrirhugað að setja á laggirnar þjóðbundna mannréttindastofnun og má skoða hvort hún gæti einnig tekið að sér það hlutverk að vinna gegn kynþáttarfordómum.
Loks má nefna ábendingu ECRI um mikilvægi þess að ljúka og leggja fram á Alþingi framkvæmdaáætlun í málefni hinsegin fólks. Að því er nú unnið í velferðarráðuneytinu.
-
Skýrsla ECRI um Ísland (á íslensku)
-
ECRI Report on Iceland (á ensku)