41. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti
Fundarheiti og nr. fundar: 41. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti.
Staður og stund: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, 7. mars 2017. Kl. 14.15–16.00.
Málsnúmer: VEL17020025.
Mætt: Sigrún Helga Lund formaður (SHL), Berglind Eva Ólafsdóttir (BEÓ, SÍS), Georg Brynjarsson (GB, BHM), Hafdís Dögg Guðmundsdóttir (HDG, KÍ), Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ, BSRB), Halldóra Friðjónsdóttir (HF, FJR), Maríanna Traustadóttir (MT, ASÍ) og Rósa G. Erlingsdóttir (RGE, VEL), starfsmaður aðgerðahóps.
Forföll boðuðu: Hannes G. Sigurðsson (HGS, SA), Jóna Pálsdóttir (JP, MMR)
Fundarritari: Rósa G. Erlingsdóttir (RGE).
Dagskrá
- Fundargerð síðasta fundar
Samþykkt án athugasemda.
- Drög að frumvarpi um breytingu á lögum nr. 10/2008 (jafnlaunavottun)
- Breytingar á reglugerð 929/2014, um vottun jafnlaunakerfa, – athugasemdir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins
Drög nýrrar reglugerðar um vottun jafnlaunakerfa voru lögð fram til kynningar.
- Breytingar á reglugerð 929/2014, um vottun jafnlaunakerfa, – athugasemdir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins
- Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins
GE gerði grein fyrir stöðu tilraunaverkefnis um innleiðingu jafnlaunastaðalsins. Um 10 aðilar sem tekið hafa þátt í tilraunaverkefninu stefna á úttekt og vottun á næstu mánuðum. Við afhendingu jafnlaunamerkis munu vottuð fyrirtæki og stofnanir jafnframt fá afhentan USB-lykil með jafnlaunamerkinu sem og stílbók með reglum um notkun þess.
Námskeið hjá Starfsmennt halda áfram og má merkja aukna eftirspurn eftir þeim. Alls var boðið upp á 13 námskeið á vormisseri.
- Minnisblað um „verkfærakistu“ á vefsíðu jafnlaunastaðalsins og starfshóp um faggildingu og vottunarmál
Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins lýkur árið 2017. Mikilvægt er að undirbúa almenna innleiðingu staðalsins og í því sambandi þarf að ljúka tveimur verkefnum. Annars vegar þarf að uppfæra og efla „verkfærakistu“ vegna innleiðingar staðalsins, þ.e.a.s. skjöl og gátlista sem finna má á vefsíðu hans, og hins vegar er mikilvægt að velferðarráðuneytið, í samstarfi við aðgerðahópinn, vinni að kröfum/viðmiðum fyrir faggildingarsvið Einkaleyfastofu sem hafa skuli til hliðsjónar við úttektir og vottun á ÍST 85.
Fyrra verkefnið felst m.a. í að útbúa sniðmát fyrir verklagsreglur fyrir fyrirtæki og stofnanir, útfæra starfaflokkunarkerfi í vefviðmóti, útfæra launagreiningartæki í vefviðmóti og skoða fyrirmyndir í öðrum löndum.
Seinna verkefnið felst í þeirri skyldu velferðarráðuneytisins, sem eiganda krafna staðalsins og útgefanda reglugerðar um vottun jafnlaunakerfa, að skilgreina kröfur og viðmið varðandi vinnuferla við úttektir og vottun sem Einkaleyfastofa getur haft til hliðsjónar við veitingu faggildingar. Tryggja þarf að vottun á grundvelli staðalsins sé í samræmi við þær hugmyndir sem uppi voru við gerð hans, m.a. sérstaka skoðun á starfaflokkun/jafnlaunakerfi í úttektarferlinu og að framkvæmd sé prófun, sbr. grein B4. Jafnframt þarf að tryggja að tími úttektar sé í samræmi við IAF Mandatory Document. Þá þarf að fylgja eftir því ákvæði að vottunarstofur sem eru faggiltar samkvæmt 17021 leggi fram áætlun um á hvern hátt þær ætla að öðlast faggildingu á gildistíma tímabundna ákvæðisins í reglugerðinni.
Rætt var um skipan starfshóps aðgerðahópsins um faggildingu og vottunarmál á grundvelli staðalsins. Sérfræðingur úr velferðarráðuneytinu mun leiða verkefnið auk fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Einnig er mikilvægt að fulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins verði í starfshópnum sem og framkvæmdastjóri Staðlaráðs Íslands. Vottunarstofur og faggildingarsvið Einkaleyfastofu yrðu til álits- og ráðgjafar eftir þörfum sem og þeir aðilar sem nú þegar hafa farið í gegnum ferli úttektar og vottunar. Starfsmaður mun vinna að undirbúningi og skipan hópsins.
- Umsóknir í Framkvæmdasjóð jafnréttismála
Í samræmi við verkefni 2 í framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum 2016–2019 er starfræktur Framkvæmdasjóður jafnréttismála, tímabundið til fjögurra ára. Honum er ætlað að stuðla að framkvæmd og eftirfylgni verkefna í framkvæmdaáætluninni. Í samræmi við verkefni í kafla um jafnrétti á vinnumarkaði hyggst starfsmaður senda þrjár umsóknir í samstarfi við aðgerðahóp um launajafnrétti.
Launarannsókn, framhald
Velferðarráðuneytið sækir um 5 m.kr. styrk til framhaldsrannsóknar á kynbundnum launamun sem mun spanna árin 2014–2017. Verkefnið verður unnið í samstarfi við aðgerðahóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og Hagstofu Íslands. Góð umsókn sem fylgir vel eftir verkefni nr. 8 um jafnrétti á vinnumarkaði í áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019. Lögð verður áhersla á að unnt verði að greina stöðu kvenna af erlendum uppruna hvað varðar launamun í sömu rannsókn.
Rannsókn um hlutastörf
Velferðarráðuneytið sótti í samstarfi við aðgerðahóp um launajafnrétti um 4 m.kr. styrk til að rannsaka ástæður þess að fleiri konur en karlar vinna hlutastörf á íslenskum vinnumarkaði. Rannsóknin fellur undir verkefni nr. 8 um jafnrétti á vinnumarkaði og launajafnrétti kynja í áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að kanna nánar ástæður þess að fleiri konur en karlar vinna hlutastörf og hvort konum bjóðist síður en körlum að gegna fullu starfi á íslenskum vinnumarkaði. Niðurstöðurnar verða nýttar við mótun tillagna um hvernig draga megi úr kynjamun hvað hlutastörf varðar.
Stelpur og tækni
Mennta- og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið, í samstarfi við aðgerðahóp um launajafnrétti, sóttu um 6 m.kr. styrk vegna verkefnisins Stelpur og tækni sem starfrækt er af Háskólanum í Reykjavík. Verkefnið fellur vel að g-lið verkefnis nr. 8 um jafnrétti á vinnumarkaði og launajafnrétti kynja í áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019 þar sem meginmarkmiðið er að fjölga konum í iðngreinum, verk- og raunvísindum og körlum í umönnunar- og kennslustörfum. Styrkurinn gerir verkefninu kleift að ná til stúlkna á allri landsbyggðinni.
- Önnur mál
- Reglur um notkun jafnlaunamerkis
Drög að reglum um notkun jafnlaunamerkis voru lögð fram til kynningar.
- Upplýst var um ráðstefnu íslenska sendiráðsins í Brussel um jafnlaunastaðalinn sem halda á 9. mars í höfuðstöðvum EFTA í tengslum við alþjóðlegan baráttudag kvenna. Meðal frummælenda eru félags- og jafnréttismálaráðherra og Maríanna Traustadóttir, sérfræðingur í jafnréttismálum. Á ráðstefnunni verður m.a. sagt frá reynslu VÍS og Tollstjóraembættisins af innleiðingu jafnlaunastaðalsins en þessir vinnustaðir tóku þátt í tilraunaverkefni um notkun hans á vegum aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti. Í lok ráðstefnunnar fóru fram pallborðsumræður með þátttöku fulltrúa frá Samtökum evrópskra atvinnurekenda, Staðlaráði Íslands, Evrópska viðskiptaráðinu og Evrópusamtökum fyrirtækja með opinbera eignaraðild.
- Lögð voru fram drög að dagskrá íslenskrar sendinefndar á kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna sem fram fer í New York 13.–24. mars næstkomandi.
Fleira ekki rætt.
Fundargerð ritaði RGE.