Herhvöt gegn kynbundnum launamun á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, var meðal frummælenda á fjölsóttum viðburði sem Ísland, Sviss og Suður-Afríka skipulögðu í samstarfi við Alþjóðavinnumálastofnunina (ILO) og UN Women á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW) í New York þar sem m.a. forystufólk í stjórnmálum og heimsþekktar stórstjörnur sögðu launamuni kynjanna stríð á hendur. Viðburðurinn markar upphaf víðtæks samstarfs ríkja og alþjóðastofnana um launajafnrétti.
Viðburðurinn vakti mikla athygli, enda gekk þar fram fyrir skjöldu heimsþekkt fólk á ýmsum sviðum og setti fram skýra kröfu um afnám kynbundins launamunar hvarvetna. Á fundinum kom fram að óleiðréttur launamunur kynja á heimsvísu sé um 23% sem felur í sér að fyrir hvern dollara sem karlar vinna sér inn fá konur aðeins 77 sent.
„Launabilið milli karla og kvenna endurspeglar óréttláta stöðu kvenna í samfélaginu sem vinnur gegn efnahagslegri valdeflingu þeirra. Þessi staðreynd hefur áhrif í hverju einasta landi um allan heim og er nú sjónum beint sérstaklega að þessum vanda“ sagði Phumzile Mlambo-Ngcuka framkvæmdastjóri UN Women m.a. á fundinum.
Leikkonan og óskarsverðlaunahafinn Patricia Arquette ræddi um hve launamunur kynjanna hefur verið grímulaus á öllum sviðum samfélagsins hjá þjóðum hvarvetna: „Hve lengi ætlum við að leyfa þessu að viðgangast“ spurði hún meðal annar og sagðist staðráðin í að leggja sitt af mörkum til að breyta stöðunni. Hún hrósaði Íslandi sérstaklega fyrir kjark og markvissa vinnu að því markmiði að uppræta kynbundinn launamun.
Abby Wambach, heimsmeistari og tvöfaldur ólympíumeistari með bandaríska landsliðinu í knattspyrnu fjallaði um kynbundna mismunun á vettvangi íþrótta og þann gífurlega launamun sem enn er staðreynd á milli kven- og karlkyns atvinnumanna í knattspyrnu. "Ég hef unnið fleiri heimsmeistaratitla en Christiano Ronaldo en ég efa að hann muni hafa áhyggjur af því að eiga fyrir reikningunum þegar hann lætur af atvinnumennsku. Ég er ekki svo lánsöm að vera í sömu stöðu."
Manuela Tomei, framkvæmdastjóri jafnréttissviðs Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, talaði um efnahagslega valdeflingu kvenna og lýsti þeirri skoðun að árangurinn ráðist að verulegu leyti af því hvernig þjóðum heims takist að tryggja háa atvinnuþátttöku kvenna og jafna stöðu kynjanna í stjórn atvinnulífsins.
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, ræddi um innleiðingu jafnlaunastaðalsins og fyrirhugaða lögfestingu jafnlaunavottunar á Íslandi. Hann sagði alveg ljóst að jafnrétti kynja væri grundvöllur efnahagslegrar velgengni Norðurlandanna og sagðist líta á jafnlaunaavottun sem mikilvægan lið í því að vinna að fullu launajafnrétti.