Hoppa yfir valmynd
17. mars 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp heilbrigðisráðherra á málþinginu „Hættu nú alveg“

Áfram dregur úr tóbaksreykingum landsmanna og sérstaklega meðal ungmenna. Um helmingur framhaldsskólanema hefur prófað rafsígarettur. Kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna reykinga árið 2015 er áætlaður 8 – 10 milljarðar króna. Þetta og fleira kom fram í ávarpi Óttars Proppé heilbrigðisráðherra á málþingi um tóbaksvarnir sem haldið var í Hörpu í vikunni.

Þingið hófst með setningarræðu Óttars Proppé heilbrigðisráðherra. Tveir erlendir fyrirlesarar voru með framsögur á þinginu. Ángel López, prófessor í hagfræði við Technical University of Cartagena á Spáni, fjallaði um hvernig nota megi skattlagningu til að bæta heilsu þjóðarinnar og Charlotta H. Pisinger, vísindamaður við Research Centre for Prevention and Health í Kaupmannahöfn ræddi um rafsígarettur og áhrif þeirra í samfélaginu, hvort þær feli í sér byltingu og hvort af þeim stafi ógn. Jónas Atli Gunnarsson kynnti á málþinginu fyrstu niðurstöður úr könnun Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem ráðist var í að frumkvæði Embættis landlæknis. Í lokin fóru fram pallborðsumræður sem Guðmundur Þorgeirsson stjórnaði, með þátttöku frummælenda ásamt Birgi Jakobssyni landlækni.

„Þótt stórlega hafi dregið úr reykingum hér á landi, líkt og víðast á vesturlöndum í áranna rás, taka þær þó enn mikinn toll þegar við horfum til lífs og heilsu fólks og þær leggja á samfélagið ýmsar byrðar og þá einkum á heilbrigðiskerfið“ sagði Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra m.a. í ræðu sinni. Hann sagði ávinning samfélagsins af því að útrýma reykingum stórkostlegan og að það væri allra hagur.

Ráðherra talaði um rafsígarettur og notkun þeirra meðal ungs fólks sem væri áhyggjuefni, en samkvæmt óbirtri könnun Rannsókna og greiningar höfðu um 52% stráka í framhaldsskólum árið 2016 prófað rafsígarettur einu sinni eða oftar um æfina og 45% stúlkna. – Um 12% stráka í framhaldsskólum höfðu reykt rafsígarettur daglega eða oftar og um 6% stúlkna. Hann sagði ekki síst alvarlegt að rafsígarettur kæmu ekki endilega í staðinn fyrir venjulegar sígarettur hjá ungu fólki og því væri ástæða væri til að óttaast að rafsígarettur geti oðrið nýr faraldur þar sem ungt fólk ánetjast nikótíni. „. Við þekkjum ekki langtímaáhrif rafsígarettna á heilsu fólks og það eitt og út af fyrir sig segir mér að við verðum að fara varlega og sporna gegn því að rafrettunotkun verði almenn og viðurkennd sem lífsstíll eins og gerðist með sígaretturnar á sínum tíma“ sagði ráðherra meðal annars.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta