Öflugir bandamenn á Norður-Atlantshafi
Öflugir bandamenn á Norður-Atlantshafi
Eftir Guðlaug Þór Þórðarson og Ine Søreide Eriksen
Ísland og Noregur, samstarfsríki og bandamenn til margra ára, hafa sameiginlega hagsmuni af því að verja og bæta hagsæld og öryggi á nærsvæði okkar. Á síðustu árum hafa nýjar öryggisáskoranir birst sem ógna og grafa undan alþjóðakerfinu. Þessi þróun kallar á virkara milliríkjasamstarf og aðgerðir til að efla viðnámsþol ríkja og alþjóðasamvinnu á sviði öryggis og varnarmála.
Sem aðildarríki Atlantshafsbandalagsins styðja Ísland og Noregur heilshugar aðlögun bandalagsins að þessum áskorunum. Atlantshafsbandalagið og ríki þess hafa unnið markvisst að því að styrkja sameiginlegar varnir og fælingarmátt í Evrópu ásamt því að vinna að stöðugleika í nágrannaríkjum bandalagsins. Ísland og Noregur leggja sitt af mörkum til þessara sameiginlegu verkefna.
Heima fyrir erum við að endurskoða stefnumótun og fjárframlög til öryggis- og varnarmála. Noregur er að ráðast í umtalsverðar fjárfestingar til að auka getu til aðgerða á hafi, meðal annars í kafbátum, skipum og eftirlitsflugvélum. Ísland hefur aukið framlög til varnartengdra verkefna og mun tryggja stuðning við bandalagsríki vegna verkefna á NorðurAtlantshafi.
Framlög okkar eru órjúfanlegur hluti af sameiginlegu eftirliti og vörnum Atlantshafsbandalagsins á Norður-Atlantshafi, svæði sem hefur aukið öryggispólitískt vægi fyrir Evrópu og Norður-Ameríku. Við munum halda áfram að vinna með bandamönnum okkar að því að styrkja sjóvarnir og viðbragðsgetu bandalagsins.
Varnarsamvinna Íslands og Noregs, sem er byggð á aðildinni að Atlantshafsbandalaginu, norrænu varnarsamstarfi á vettvangi NORDEFCO og tvíhliða samkomulagi um öryggismál, varnarmál og borgaralegan viðbúnað, heldur áfram að þróast og laga sig að nýjum áskorunum.
Við höfum þess vegna undirritað sameiginlega yfirlýsingu um öryggis og varnarmál sem staðfestir skuldbindingar okkar og áhuga á að kanna frekari tækifæri til að auka samvinnu
ríkjanna.
Ísland og Noregur eru og verða öflugir bandamenn á Norður-Atlantshafi, og við erum einhuga um að efla öryggi í okkar heimshluta.
Guðlaugur er utanríkisráðherra Íslands.
Ine Søreide er varnarmálaráðherra Noregs.