Iceland-málið kynnt á fundi í Alþjóðahugverkastofnuninni
Iceland-málið var í dag kynnt á fundi nefndar Alþjóðahugverkastofnunarinnar í Genf um vörumerki, hönnun og landfræðilegar tilvísanir, en fundinn sóttu fulltrúar 87 ríkja. Málið snýst um að í nóvember sl. gripu íslensk stjórnvöld til lagalegra aðgerða gegn bresku verslunarkeðjunni Iceland Foods, sem hefur um árabil beitt sér gegn því að íslensk fyrirtæki geti auðkennt sig með upprunalandinu við markaðssetningu í Evrópu á vörum sínum og þjónustu.
Íslenska sendinefndin sem er skipuð fulltrúum utanríkisráðuneytisins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Einkaleyfastofunnar kynnti Iceland-málið stuttlega fyrir nefndinni og gerði grein fyrir þeim vanda sem getur hlotist af skráningum landaheita sem orðmerkja, þ.e. vörumerkja sem samanstanda eingöngu af orðum.
Sendinefndin áréttaði einnig mikilvægi þess að viðskiptalífið geti tengt vörur sínar og þjónustu við uppruna og benti á að með því að leyfa skráningar orðmerkja sem samanstanda eingöngu af landaheiti væri í raun verið að veita eiganda skráningarinnar einkarétt á notkun viðkomandi landaheitis í viðskiptum. Slíkar skráningar takmarka því svigrúm viðskiptalífsins, auk þess sem þær geta í sumum tilfellum verið beinlínis misvísandi gagnvart neytendum um raunverulegan uppruna vara og þjónustu.