Hoppa yfir valmynd
31. mars 2017 Utanríkisráðuneytið

Atlantshafsbandalagið hornsteinn í samvinnu Evrópu og Norður-Ameríku

Guðlaugur Þór á utanríkisráðherrafundi NATO - mynd

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins funduðu í dag um sameiginlegan varnarviðbúnað, aðgerðir til að stuðla að stöðugleika, aukin framlög til varnarmála og stöðuna í Úkraínu.

„Það var mikill samhljómur á fundinum og ljóst bandalagið er og verður hornsteinn í samstarfi lýðræðisríkja beggja vegna Atlantshafsins," segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sem sótti fundinn. „Nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rex Tillerson, var skýr í þessa veru og hvatti jafnframt önnur ríki til að leggja meira að mörkum. Ísland hefur aukið framlög sín til varnarmála og þátttöku í störfum Atlantshafsbandalagsins og við munum halda áfram á sömu braut," segir Guðlaugur.

Ráðherrarnir ræddu eflingu sameiginlegs varnarviðbúnað og viðnámsþols gagnvart nýjum öryggisáskorunum. Sérstök áhersla hefur verið á að efla hefðbundnar varnir og viðveru bandalagins í austanverðri Evrópu, en jafnframt var samstaða um að leita leiða til að draga úr spennu, auka gagnsæi og traust í samskiptum við Rússland.

Á fundinum var ennfremur rætt um mikilvægi þess að bandalagið efli stuðning við samstarfsríki til að gera þeim betur kleift að tryggja öryggi eigin borgara. Ráðherrarnir ræddu í því samhengi stuðning við ríki í Miðausturlöndum og Miðjarðarhaf, aukið eftirlit á því hafsvæði og framlag bandalagsins til baráttunnar gegn hryðjuverkum.

Guðlaugur Þór og Rex Tillerson

Ráðherrafundinum lauk með fundi NATO-Úkraínunefndarinnar þar sem rætt var um átökin í Austur-Úkraínu, stöðu Minsk-samkomulagsins og umbótastarf stjórnvalda.

Þá átti utanríkisráðherra fund með Péter Szijjartó, utanríkisráðherra Ungverjalands, þar sem Atlantshafstengslin, öryggismál og loftrýmisgæsla á Íslandi voru meðal umræðuefna, auk samstarfs um jarðhita.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta