Málþing og umræður um utanríkisþjónustu til framtíðar
Utanríkisþjónusta til framtíðar, er yfirskrift málþings sem utanríkisráðuneytið og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands standa að á morgun, þriðjudaginn 4. apríl. Málþingið er hluti af vinnu sem nú stendur yfir í ráðuneytinu en hún miðar að heildstæðu mati á störfum og hagsmunagæslu utanríkisþjónustunnar.
„Við viljum að þetta ferli sé opið og leitum fanga sem víðast. Því höfum við fengið fulltrúa úr ólíkum átttum; háskólasamfélaginu, viðskiptalífinu og hjálparsamtökum til að hefja umræðurnar. Við vonumst svo til að heyra í sem flestum og hvetjum allt áhugafólk um framtíð utanríkisþjónustunnar til að mæta og ræða hana. Markmiðið er að gera okkur kleift að sinna höfuðmarkmiðunum enn betur – að gæta hagsmuna Íslands í hnattrænum og síbreytilegum heim,“ segir Guðlaugur Þór.
Í pallborði sitja Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, Albert Jónsson sendiherra, Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, og Þórir Guðmundsson deildarstjóri Rauða krossins í Reykjavík. Fundarstjórar eru Sigríður Snævarr sendiherra og Þórunn Elísabet Bogadóttir, aðstoðarritstjóri Kjarnans, og Pia Hanson forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar HÍ flytur lokaorð.
Málþingið er öllum opið og hefst kl. 8:30 í fyrramálið í Norræna húsinu.Hægt verður að fylgjast með beinu streymi frá málþinginu.
Þá hefur verið opnað netfangið [email protected] og er öllum frjálst að senda þangað tillögur til 2. maí nk.