Ný bloggfærsla frá Pétri Waldorff, "Left Out to Dry? Gender and Fisheries on Lake Tanganyika"
Pétur Waldorff, rannsakandi við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST), birti á dögunum rannsóknarblogg í bloggritröðinni Gender Full Spectrum sem Jafnréttisskólinn stendur að í samvinnu við UNU-MERIT (Maastricht Economic and Social Research Institute on Innovation and Technology). Hann fjallar um rannsóknarverkefni sitt: Kynjuð virðiskeðjugreining fisks og fiskverkunar við strendur Tanganyikavatns í Tansaníu.Svæðið einkennist af sárafátækt en íbúarnir við vatnið eru þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa aðgang að próteinríkum fiski. Rannsóknarverkefnið er unnið í samvinnu við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP).
Í grein sinni fjallar Pétur um reynslu sína í Tansaníu og beinir kastljósinu að ákveðnum þáttum úr vettvangsrannsókn sinni við strendur Tanganyikavatns þar sem hann og samstarfsmenn hans unnu í nánu sambandi við fiskimannasamfélögin við öflun gagna. Rannsóknin fjallar um mismunandi aðstæður kynjanna innan virðiskeðju fisks og hið mikilvæga framlag kvenna sem hefur í gegnum tíðina verið vanmetið. Pétur birtir rök fyrir því að "þar sem störf í fiski eru oft kynjaskipt getur virðiskeðjugreining hjálpað okkur að skilja, ekki einvörðungu viðskiptalega þætti virðiskeðjunnar, heldur einnig kynjaða verkaskiptingu, mismunun og félagsleg áhrif vegna breytinga innan virðiskeðjunnar. Einungis karlar stunda til dæmis veiðar við Tanganyika vatn á meðan að konur eru í meirihluta þegar kemur að fiskverkun, þurrkun, reykingu og sölu fisks".
Vinna kvenna álitin lítils virði
Pétur bendir m.a. á að "kynjamismunun innan virðiskeðjunnar má rekja til hversu lítils virði vinna kvenna er álitin [miðað við vinnu karla] - vandamál sem stigmagnast með tilliti til skerts aðgengis kvenna að fjármagni, fiskvinnslu- og fiskgeymslutækni, og starfsþjálfun. Því er staðreyndin sú að þó svo konur séu í lykilhlutverki í þessum geira, hafa þær takmarkað aðgengi að fjármagni, eignum og ákvarðanatöku sem að einskorða þær oft við neðstu hlekki virðiskeðjunnar og hinn svokallaða óformlega geira sem er að finna í þróunarlöndum."
Rannsókn Péturs sýnir að konur eru þær fyrstu sem hverfa af vettvangi og missa vinnuna þegar fiskveiði minnkar og þegar fiskvinnsla og -verkun er vélvædd. Við höfum séð slíka þróun meðfram strandlengju Viktoríuvatns (norðaustan við Tanganyikavatn) þar sem tæknivæðing og -þróun samhliða aukinni einkavæðingu hefur leyst fjölmargar fiskverkunar- og fisksölukonur af hólmi.
Finna má greinina í heild sinni hér og heimasíðu Gender Full Spectrum bloggsins má finna hér.