Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2017 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Þróun á stafrænum fjölmiðlamarkaði á Norðurlöndum

Á fundi ráðherra menningar- og fjölmiðlamála á Norðurlöndum var meðal annars rætt  um þróun á fjölmiðlamarkaði, einkum breyttar aðstæður á auglýsingamarkaði og hvaða áhrif þær hafa á rekstrarskilyrði fjölmiðla sem reknir eru með auglýsingatekjum.

Kampen-om-reklamen
Kampen-om-reklamen

Í frétt á vef norrænu ráðherrranefndarinnar segir:

"Norræna gagnamiðstöðin um fjölmiðlarannsóknir, NORDICOM, kynnti nýja skýrslu sem miðstöðin vann að beiðni menningarmálaráðherranna. Er þetta í fyrsta sinn sem gerð er heildargreining á þróun auglýsingamarkaðar á Norðurlöndum á tímabilinu 2011–2016. Titill skýrslunnar er „Kampen om reklamen“ (Baráttan um auglýsinguna) en niðurstaða hennar bendir afdráttarlaust til þess að stafræn þróun hafi haft miklar afleiðingar fyrir fjölmiðlalandslagið á Norðurlöndum.

Stafræn tækni hefur gjörbreytt rekstrarforsendum fjölmiðla á Norðurlöndum sem fjármagnaðir eru með auglýsingatekjum. Staðbundnir fjölmiðlar og á landsvísu mega sín lítils í samkeppninni við þær auglýsingalausnir sem boðið er upp á hjá hnattrænum veffyrirtækjum eins og t.d. Google, Facebook og YouTube. Margt skilur á milli aðstæðna í löndunum en þróunin er greinileg og að mati NORDICOM mun hún haldast óbreytt enn um sinn. Þegar meira en helmingur auglýsingatekna stafrænna fjölmiðla fer til erlendra fyrirtækja er hætt við að mörg fjölmiðlafyrirtæki muni leggja upp laupana. Getur það haft áhrif á fjölbreytnina í norrænu fjölmiðlalandslagi."

Í yfirlýsingu sem samþykkt var á fundinum segir:

.„Við viljum tryggja sjálfbært og fjölbreytt fjölmiðlalandslag þar sem gott jafnvægi ríkir milli ljósvakamiðla í almannaþjónustu, einkarekinna fjölmiðla, hnattrænna vefmiðla og nýjunga á sviði fjölmiðlunar. Það er grunnurinn að breiðri og frjálsri lýðræðisumræðu á Norðurlöndum. Við erum því uggandi yfir þróuninni á auglýsingamarkaði og afleiðingum hennar fyrir fjölmiðlalandslagið. Við fylgjumst náið með gangi mála í löndunum.“

„Við höfum ákveðið að ráðast í stefnumótandi úttekt á samstarfinu í von um að geta greint betur hvaða aðgerða er hægt að grípa til í sameiningu. Úttektin á að innihalda tillögur og er væntanleg fyrir næsta fund norrænu menningarmálaráðherranna, þar sem fyrirhugað er að leggja hana fram.“

Karitas H. Gunnarsdóttir skrifstofustjóri skrifstofu menningarmála sat fundinn fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðherra.

Tengill á skýrsluna „Kampen om reklamen“

Frétt á vef norrænu ráðherranefndarinnar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta