Hoppa yfir valmynd
3. maí 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

42. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti

Fundarheiti og nr. fundar: 42. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti.
Staður og stund:
Fjármála- og efnahagsráðuneytið, 3. maí 2017. Kl. 14.00–16.00.
Málsnúmer:
VEL17020025.

Mætt: Sigrún Helga Lund formaður (SHL), Berglind Eva Ólafsdóttir (BEÓ, SÍS), Georg Brynjarsson (G.B. BHM), Hafdís Dögg Guðmundsdóttir (HDG, KÍ), Hannes G. Sigurðsson (HGS, SA), Jóna Pálsdóttir (JP, MMR), Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ, BSRB), Halldóra Friðjónsdóttir (HF, FJR), og Rósa G. Erlingsdóttir (RGE, VEL), starfsmaður aðgerðahóps.

Forföll boðaði: Maríanna Traustadóttir (MT, ASÍ).

Fundarritari: Rósa G. Erlingsdóttir (RGE).

Gestur: Guðný Finnsdóttir.



Dagskrá

  1. Fundargerð síðasta fundar

    Samþykkt án athugasemda.

  2. Nýr formaður aðgerðahóps um launajafnrétti

    Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, skipaði Sigrúnu Helgu Lund tölfræðing formann aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins í mars sl.

     

  3. Starfshópur aðgerðahópsins um faggildingu og vottunarmál

    Guðný Finnsdóttir verkefnastjóri hefur tekið að sér verkefni fyrir velferðarráðuneytið og aðgerðahóp um launajafnrétti sem felst í því að vinna að skilgreiningum á þeim kröfum eða viðmiðum sem faggildingarsvið Einkaleyfastofu skal hafa til hliðsjónar við veitingu faggildingar til vottunaraðila. Þessar skilgreiningar skulu staðfesta að vottunaraðili uppfylli kröfur staðalsins ÍST ISO/IEC 17021 og kröfur reglugerðar um vottun jafnlaunakerfa til að framkvæma vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana samkvæmt staðlinum ÍST 85.

    Guðný mun vinna með starfsteymi aðgerðahópsins um faggildingar- og vottunarmál. Í teyminu starfa auk Guðnýjar Halldóra Friðjónsdóttir, frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Hannes Sigurðsson, Samtökum atvinnulífsins, Maríanna Traustadóttir, Alþýðusambandi Íslands og Heimir Skarphéðinsson, frá nýsköpunar- og atvinnuvegaráðuneytinu. Hlutverk teymisins er einnig að kalla til samráðs og ráðgjafar, við skilgreiningar á þeim kröfum sem gerðar verða til vottunaraðila, fulltrúa vottunarstofa og faggildingarsviðs Einkaleyfisstofu sem og þá aðila sem nú þegar hafa farið í gegnum ferli úttektar og vottunar.

    Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili af sér tillögum til ráðuneytisins og aðgerðahópsins fyrir 1. september nk. Guðný mun koma á fundi aðgerðahópsins og gera grein fyrir framvindu verkefnisins sem hún vinnur í samstarfi við starfsmann hópsins.

  4. Frumvarp um breytingar á lögum nr. 10/2008 vegna jafnlaunavottunar
    1. Reglugerð um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85, nr. 365/2017.

      Lögð fram til kynningar.

       

    2. Reglur um notkun jafnlaunamerkis.

      Reglurnar hafa verið undirritaðar af ráðherra og hefur umsókn um einkaleyfi á félagamerki (arftaki gæðamerkja sem voru notuð til ársins 2002) verið send Einkaleyfastofu.

      Markmið ráðuneytisins er að sækja um fyrir þær vörur og þjónustu sem faggiltir aðilar og ráðgjafar á þessu sviði eru líklegir til að nota í sinni vinnu, þ.e.a.s. markaðsstarf, fræðslu, fræðslu- og kennslugögn, vottun o.þ.h. Ef ráðuneytið á merkið ekki skráð fyrir alla þessa flokka skapast hætta á að faggiltir aðilar eða ráðgjafar reyni að tryggja sér slík réttindi eða leyfi.

      Sótt er um einkaleyfi fyrir eftirfarandi notkun:

      • Pappír og pappi; prentað mál; fræðslu og kennslugögn.
      • Auglýsingastarfssemi; rekstur og stjórnun fyrirtækja; skrifstofustarfssemi
      • Fræðsla og þjálfun
      • Gæðaeftirlit; gæðamat; gæðastjórnun; gæðavottun; gæðaúttektir; hönnun og þróun tölvubúnaðar og tölvuhugbúnaðar; samræmismat; upplýsingagjöf og ráðgjöf við gæðaeftirlit, -mat, -stjórnun, -vottun og -úttektir; upplýsingagjöf og ráðgjöf varðandi þróun og notkun staðla; upplýsingagjöf og ráðgjöf varðandi samræmismat; vísinda- og tækniþjónusta og rannsóknir og hönnun í tengslum við það; þjónusta í tengslum við þróun og notkun staðla; þróun matsaðferða.
      • Yfirferð staðla og aðferða til að tryggja samræmi við lög og reglur.
  5. Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins

    Gerð var grein fyrir stöðu tilraunaverkefnis um innleiðingu staðslsins. HF greindi frá námskeiðum Starfsmenntar og sagði að fundur með þátttakendum yrði boðaður síðar í mánuðinum. Nánar verður gerð grein fyrir stöðu tilraunaverkefnisins á næsta fundi.

  6. Styrkir til verkefna aðgerðahópsins úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála

Í samræmi við verkefni 2 í framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum 2016–2019 er starfræktur Framkvæmdasjóður jafnréttismála, tímabundið til fjögurra ára. Honum er ætlað að stuðla að framkvæmd og eftirfylgni verkefna í framkvæmdaáætluninni. Í samræmi við verkefni í kafla um jafnrétti á vinnumarkaði sendi starfsmaður þrjár umsóknir í samstarfi við aðgerðahóp um launajafnrétti.

Styrkur fékkst til eftirfarandi verkefna:

Verkefnið Stelpur og tækni (4.0 milljónir) unnið í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og Háskólann í Reykjavík. Markmið verkefnisins er að fjölga konum í verk- og raunvísindum. Styrkurinn verður nýtt til að fjármagna þátttöku stúlkna á landsbyggðinni. Verkefnastjóri mun gera aðgerðahópnum grein fyrir verkefninu.

Verkefnið Hlutastörf á íslenskum vinnumarkaði (2.5 milljónir) unnið í samstarfi við Hagstofu Íslands og Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, prófessor í félagsfræði. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að kanna nánar ástæður þess að fleiri konur en karlar vinna hlutastörf og hvort konum bjóðist síður en körlum að gegna fullu starfi á íslenskum vinnumarkaði og verða niðurstöðurnar nýttar við mótun tillagna um hvernig draga megi úr kynjamun hvað hlutastörf varðar.

Verkefnið Rannsókn á launamun karla og kvenna fyrir árin 2014–2017 (2,5 milljónir).

Sótt var um styrk til framhaldssrannsóknar á kynbundnum launamun sem mun spanna árin 2014–2017. Verkefnið verður unnið í samstarfi við aðgerðahóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og Hagstofu Íslands. Lögð verður áhersla á að unnt verði að greina stöðu fólks af erlendum uppruna hvað varðar launamun í sömu rannsókn.

Nánar verður rætt um framkvæmd verkefnanna á næsta fundi.

  1. Önnur mál

Jafnréttisþing verður haldið í október 2017. Ráðherra hefur óskað eftir að megináhersla verði lögð á jafnrétti á vinnumarkaði og jafnlaunamál. Starfsmaður óskaði eftir hugmyndum frá fulltrúum í aðgerðahópi sem gott væri að ræða á næsta fundi hópsins. Gert er ráð fyrir að drög dagskrár liggi fyrir í ágúst nk.

Starfsmaður kynnti að frá 1. maí 2017 yrði starfrækt sérstakt verkefni í velferðarráðuneytinu á sviði jafnréttismála sem taka mun til allra verkþátta í þeim málaflokki. Um er að ræða tímabundið fyrirkomulag til tveggja ára og markmiðið er að auka sýnileika jafnréttismála almennt og öðlast betri yfirsýn yfir framkvæmd og eftirfylgni stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki.

Auk verkefnastjóra (RGE) munu fjórir til fimm sérfræðingar koma til með að vinna að umræddum verkefnum og koma þeir bæði af skrifstofu félagsþjónustu og skrifstofu lífskjara og vinnumála. Á þann hátt er vonast til að meiri yfirsýn náist og að það verði meiri samhæfing í verkefnum á sviði jafnréttismála sem hingað til hafa skarast á milli skrifstofa. Vegna aukinnar áherslu á jafnréttismál var nýlega auglýst starf nýs sérfræðings í velferðarráðuneytinu. Starfsmaðurinn kemur m.a. til með að vinna að verkefnum sem varða jafnlaunamál og verkefnum sem skapast innan ráðuneytisins vegna frumvarpsins, verði það að lögum, sem og að efla almenna vitundarvakningu um jafnlaunastaðalinn.

 

Fleira ekki rætt.

Fundargerð ritaði RGE.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta