Jón Gunnarsson fundaði með samgönguráðherra Kanada
Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Marc Garneau, samgönguráðherra Kanada, ræddu ýmis sameiginleg mál ríkjanna á einkafundi þeirra í gær en báðir ráðherrarnir taka nú þátt í alþjóðlegum ráðherrafundi um hafnarríkiseftirlit sem fram fer í Vancouver í Kanada.
Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Marc Garneau, samgönguráðherra Kanada, ræddu ýmis sameiginleg mál ríkjanna á einkafundi þeirra í gær en báðir ráðherrarnir taka nú þátt í alþjóðlegum ráðherrafundi um hafnarríkiseftirlit sem fram fer í Vancouver í Kanada.
Á fundinum kom það fram hjá kanadíska ráðherranum að löndin hefðu lengi átt gott samstarf á alþjóðlegum vettvangi. Sagði hann mikilvægt að halda áfram góðu samstarfi og minntist sérstaklega á loftslagsmálin í því samhengi. Kvað hann brýnt að draga úr útblæstri í samgöngum bæði frá skipum og í flugi. Einnig sagði hann nauðsynlegt að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á heimskautasvæðum enda hefði notkun þess neikvæð áhrif á umhverfið og stuðlaði að hraðari bráðnun heimskautaíssins. Loks nefndi hann að hávaði frá skipum hefði neikvæð áhrif á sjávarspendýr, einkum hvali.
Jón Gunnarsson tók undir það að þjóðirnar hefðu lengi átt gott samstarf á alþjóðavettvangi. Varðandi áherslur í loftslagsmálum lýsti hann sig sammála því að að draga þyrfti úr útblæstri á norðurslóðum og deildi áhyggjum með hinum kanadíska starfsbróður sínum af þeirri ógn sem stafar af losun gróðurhúsalofttegunda. Hann benti jafnframt á að Íslendingar væru í fremstu röð í nýtingu endurnýjanlegrar orku og nefndi sérstaklega í því sambandi jarðvarma til húshitunar og raforkuframleiðslu. Sagði hann íslenska vísindamenn í fremstu röð á heimsvísu á þeim vettvangi.
Loks ræddu ráðherrarnir um leiðir til fjármögnunar framkvæmda í vegagerð með samstarfi opinberra aðila og einkaaðila og sagði kanadíski ráðherrann að slíkt samstarf væri jákvætt og leiddi til hraðari uppbyggingar samgöngumannvirkja en ella væri kostur á.