Hoppa yfir valmynd
16. maí 2017 Utanríkisráðuneytið

Brexit rætt á fundi EES-ráðsins

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ásamt utanríkisráðherra Liechtenstein, varaforsætisráðherra og ráðherra ESB-mála á Möltu og ráðherra EES- og ESB-mála í Noregi - myndEFTA
Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra sat í dag fund EES-ráðsins í Brussel. Í tengslum við ráðsfundinn áttu ráðherrar EFTA-ríkjanna í EES, fund með Michel Barnier, aðalsamningamanni Evrópusambandsins í viðræðum um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Á fundinum kom fram almennur samhljómur um mikilvægi þess að EFTA-ríkin innan EES yrðu reglulega upplýst um framgang viðræðna við Bretland og gaf aðalsamningamaður ESB skýr fyrirheit um haft yrði náið samráð við EFTA-ríkin. Utanríkisráðherra lagði áherslu á að Brexit mætti ekki leiða til nýrra viðskiptahindrana innan Evrópu og undirstrikaði að íslensk stjórnvöld legðu áherslu á að rækta áfram góð samskipti við bæði Evrópusambandið og Bretland.

Meginefni EES-ráðsfundarins var að venju framkvæmd EES-samningsins. Breið samstaða var á meðal fulltrúa bæði EFTA-ríkjanna innan EES og Evrópusambandsins um að framkvæmd EES-samningsins gengi vel. Lagði utanríkisráðherra áherslu á að reynsla Íslendinga af EES-samningnum væri góð og almennt ríkti sátt um hann hér á landi. Hins vegar kallaði samningurinn á öfluga hagsmunagæslu af hálfu Íslands og upplýsti utanríkisráðherra að unnið væri að því að styrkja verulega hagsmunagæslu Íslands á mótunarstigi nýrra EES-reglna.

Þá var á fundinum fjallað um samstarf EFTA-ríkjanna innan EES og Evrópusambandsins um framkvæmd Parísarsamkomulagsins og lögðu ráðherrarnir áherslu á mikilvægi þess að EFTA-ríkin og Evrópusambandið ynnu náið saman að aðgerðum í loftslagsmálum. Ráðherrarnir ræddu ennfremur um málefni Norðurslóða.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta