Úttekt á rekstrarstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi
Sjávarútvegsráðherra og formaður atvinnuveganefndar Alþingis hafa ákveðið að nauðsynlegt sé að fram fari úttekt á rekstrarstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi. Einkum verði horft til þess hvaða áhrif styrking krónunnar hefur haft á stöðu fyrirtækjanna en einnig litið til afleiðinga sjómannaverkfallsins fyrir einstakar greinar. Jafnframt verði áhrif á virðiskeðju sjávarútvegs tekin til skoðunar.
Sérstaklega verði horft til þeirra litlu og meðalstóru fyrirtækja sem til viðbótar við fyrrgreindan vanda standa nú frammi fyrir því að ekki verður framlengdur sá skuldatengdi afsláttur á veiðigjöldum sem þau hafa notið síðustu fimm ár. Á grundvelli niðurstaðna úttektarinnar verður tekin ákvörðun um hvort staðan kalli á sérstakar ráðstafanir – og þá hverjar.
Úttekt þessi verður framkvæmd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og stefnt er að því að henni verði lokið um miðjan september.