Ráðherra ávarpar ársfund ILO
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, ávarpaði í dag 106. þing Alþjóðavinnumála-stofnunarinnar (ILO) sem nú stendur yfir í Genf. Þingið sækja á sjötta þúsund fulltrúar atvinnurekenda, samtaka launafóks og ríkisstjórna hvarvetna úr heiminum. Forseti þingsins var kosinn Carles Rudy, vinnumálaráðherra Panama.
Í upphafi ræðu sinnar gerði Þorsteinn að umtalsefni skýrslu framkvæmdastjóra ILO sem lögð var fyrir þingið; „Work in a changing climate: The Green Initiative“ þar sem fjallað er um ýmsar hliðar vinnumarkaðsmála í ljósi loftslagsbreytinga, áhrif, afleiðingar og aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum. Ráðherra fagnaði frumkvæði ILO og undirstrikaði jafnframt afdráttarlausan stuðning íslenskra stjórnvalda við Parísarsamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.
Í tengslum við umræðu um loftslagsbreytingar ræddi Þorsteinn um þær miklu áskoranir sem alþjóðlegur vinnumarkaður stendur andspænis. Hann gerði að umtalsefni móttöku flóttafólks við ríkjandi aðstæður þar sem fleira fólk en nokkru sinni flýr heimkynni sín. Þjóðir heims þurfi að bregðast við skjótt og vel, veita flóttafólki öruggt skjól og skapa því mannsæmandi aðstæður: „Við eigum að breyta sýn okkar þannig að við hættum að líta á flóttafólk sem byrði og metum þess í stað það sem fólkið getur lagt til samfélagsins.“ Þorsteinn benti á að á að atvinnuþátttaka innflytjenda væri hærri á Íslandi en í nokkru öðru ríki OECD og sagði atvinnuþátttöku flóttafólks sem væri nýlega komið til landsins lofa góðu. Hann lagði áherslu á að atvinnuþátttaka væri einn af lykilþáttum þess að fólki gangi vel að aðlagast nýju samfélagi og skapa sér og fjölskyldu sinni góðar aðstæður. Því skipti miklu að haga móttöku flóttafólks þannig að það nái fótfestu á vinnumarkaði viðtökulandsins.
Þorsteinn ræddi einnig um áskoranir alþjóðlegra vinnumarkaða þegar kemur að jafnrétti kynjanna og þær leiðir sem Ísland hefur valið til að viðhalda forystuhlutverki sínu í jafnréttismálum á alþjóðavísu. Nefndi hann í því sambandi nýsamþykkt lög um jafnlaunavottun í tengslum við aðgerðir til að útrýma kynbundnum launamun, auk þess sem hann fjallaði um áhrif fæðingarorlofs á jafnrétti á vinnumarkaði, beitingu kynjakvóta til að jafna hlut kynjanna í stjórnum fyrirtækja og innleiðingu kynjaðrar fjárlagagerðar.