Hoppa yfir valmynd
14. júní 2017

Fjölgun ferðamanna meiri en vöxtur í kortaveltu

Kortavelta erlendra ferðamanna í íslenskum krónum jókst um tæp 28% í apríl 2017 miðað við sama mánuð árið áður. Á sama tíma var fjölgun ferðamanna um 62% og var þetta fimmti mánuðurinn í röð sem vöxtur ferðamanna var meiri en vöxtur í kortaveltu þeirra, samkvæmt samantekt ráðuneytisins um þetta efni.

Eins og sjá má á mynd 1 þá hefur kortavelta erlendra ferðamanna jafnan vaxið nokkuð hraðar en fjölgun þeirra. Neysla á hvern erlendan ferðamann fór vaxandi allt þar til í desember 2016 þegar þróunin snerist við og hún tók að minnka.

Mynd 1

Heimild: Rannsóknarsetur verslunarinnar

Fyrstu fjóra mánuði ársins 2017 fjölgaði erlendum ferðamönnum sem heimsækja Ísland um 56% miðað við sama tímabil í fyrra og virðist því, enn sem komið er, gengisstyrking krónunnar undanfarið ár hafa haft óveruleg áhrif á fjölgun erlendra ferðamanna sem hingað koma. Leiða má að því líkum að þó gengissveiflur hafi ekki veruleg áhrif á fjölda ferðamanna sem sækja landið heim þá hafi þær áhrif á neyslu þeirra í krónum. Ferðafólk ákveði, meðvitað eða ómeðvitað, hve miklu það ætli að eyða í sinni heimamynt í heimsókninni til Íslands og sú neysla haldist óbreytt, en sveiflist í íslenskum krónum í samræmi við gengissveiflur krónunnar.

Mynd 2 sýnir vöxt tólf mánaða meðalkortaveltu hvers erlends ferðamanns, miðað við sama tímabil árið áður. Á myndinni er ekki að sjá að gögnin styðji kenninguna sem sett var fram að ofan, um að ferðamenn haldi neyslu sinni í heimamynt nokkuð stöðugri. Á henni sést þó að eftir að styrkingarfasi krónunnar hófst á síðari hluta ársins 2016 dró lítillega úr kortaveltu hvers ferðamanns í krónum, eða um tæp 3% frá maí 2016 til apríl 2017 miðað við sama tímabil ári áður. Samdrátturinn er þó lítill og þegar tekið er tillit til gengisbreytinga mælist vöxtur í kortaveltu ríflega 11%.

Í aprílmánuði nam samdráttur í kortaveltu á hvern erlendan ferðamann um 21%, miðað við sama mánuð árið áður. Það er nokkuð meiri samdráttur en mánuðina fjóra á undan en í ágætu samræmi við gengisstyrkingu krónunnar undanfarna 12 mánuði, sem nam rúmum 17%. Það sem meira er þá nam samdrátturinn 7,3% þegar leiðrétt er með gengisvísitölu. Svo mikill samdráttur í erlendri mynt hefur ekki mælst síðan í desember 2013.

Mynd 2

Heimild: Rannsóknarsetur verslunarinnar og Seðlabanki Íslands

Flestir erlendra ferðamanna sem heimsækja Ísland koma frá Bretlandi, Bandaríkjunum og evrusvæðinu. Hér að neðan eru þessir hópar skoðaðir nánar en vegna takmarkaðra upplýsinga um þjóðerni erlendra ferðamanna takmarkast umfjöllun um evrusvæðið við upplýsingar um neyslu ferðamanna frá Finnlandi, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Spáni og Þýskalandi.

Myndir 3 og 5 sýna meðalkortaveltu ferðamanna frá Bandaríkjunum og evrusvæðinu. Hér sést glöggt að neysla ferðamanna í krónum hefur dregist saman í takt við gengisstyrkingu krónunnar á meðan breytingar í neyslu mældar í heimamynt ferðamanna eru minniháttar, rétt eins og ályktað var hér á undan að myndi verða raunin. Neysla mæld í heimamynt Bandaríkjamanna og Evrópubúa jókst hins vegar nokkuð meðan krónan var stöðug en neysla Bandaríkjamanna í krónum jókst meira en Evrópubúa í samræmi við gengissveiflur dollars og evru gagnvart krónunni á þessum tíma. Á fyrri hluta áranna 2015 og 2016 veiktist krónan lítillega gagnvart dollara og styrktist lítillega gagnvart evru.

Mynd 3

Mynd 4

Heimild: Rannsóknarsetur verslunarinnar og Seðlabanki Íslands

Heimild: Rannsóknarsetur verslunarinnar og Seðlabanki Íslands

Mynd 4 sýnir meðalkortaveltu ferðamanna frá Bretlandi og þar kemur á óvart að þrátt fyrir mikla styrkingu krónunnar gagnvart pundinu hefur neysla breskra ferðamanna í krónum aukist. Aukningin í pundum er mikil, eða rúm 40%. Ástæður þessa eru ókunnar en kunna að tengjast því að breskir ferðamenn verja almennt mun lægri fjárhæðum í ferðum sínum til Íslands samanborið við ferðamenn frá Bandaríkjunum og evrusvæðinu. Þannig nam meðalkortavelta ferðamanna frá Bretlandi um 60 – 90 þús. kr. í upphafi árs 2016, eða um 330 – 480 pundum. Á sama tíma var neysla Bandaríkjamanna um þrefalt til fjórfalt meiri. Bretar hafa því varla mikið svigrúm til þess að minnka neyslu sína verulega jafnvel þó pundið veikist gagnvart krónunni.

Mynd 5

Heimild: Rannsóknarsetur verslunarinnar og Seðlabanki Íslands

Ekki kemur á óvart að talsverð styrking gengis krónunnar hafi áhrif á eyðslu erlendra ferðamanna hér á landi í krónum. Gengisstyrkingin hefur jafnframt aukið kaupmátt Íslendinga á erlendri grundu og hefur kortavelta Íslendinga í útlöndum sjaldan verið meiri en í apríl 2017. Er þetta gott dæmi um hvernig gengisstyrking heldur aftur af ofhitnun hagkerfisins með því að beina eftirspurn úr landi. Gengisstyrking krónunnar er því ekki aðeins afleiðing mikils vaxtar í ferðaþjónustu, heldur myndar einnig mótvægi gegn áframhaldandi örum vexti greinarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta