Heilsueflandi samfélag í Bláskógabyggð
Um 74% landsmanna búa nú í sveitarfélögum sem taka þátt í verkefninu um heilsueflandi samfélag með samningi við Embætti landæknis. Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra ræddi áherslur stjórnvalda varðandi lýðheilsu og heilsueflingu við undirritun samnings um þátttöku Bláskógabyggðar í verkefninu nýlega.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, var viðstaddur undirritun samningsins sem fór fram í húsnæði heilsugæslustövar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) í Laugarási. Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU kynnti verkefni heilsugæslunnar og ræddi um tækifæri sem felast í uppbyggingu grunnheilbrigðisþjónustu á Suðurlandi. Hún fagnaði samningi um heilsueflandi forvarnir sem hún sagði eitt af lykilhlutverkum heilsugæslunnar.
Helga Kristín Sæbjörnsdóttir, verkefnastjóri heilsueflandi samfélags í Bláskógabyggð sagði frá tilurð og tilgangi verkefnisins um Bláskógabyggð sem heilsueflandi samfélag og síðan var samningurinn undirritaður af hálfu Helga Kjartanssonar, oddvita Bláskógabyggðar og Ingibjörgu Guðmundsdóttir frá Embætti landlæknis.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra talaði í ávarpi sínu um þau meginmarkmið heilsueflandi samfélags að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífshættáttum, heilsu og vellíðan allra og að bjóða upp á jöfn tækifæri fólks til að móta heilbrigðan lífsstíl og gera hollt val að hinu auðvelda vali: „Í því skyni spila saman efnahagslegir þættir, stjórnsýsla, öryggismál, félagslegt umhverfi, fræðsla og hvatning til heilbrigðis. Í Heilsuseflandi samfélagi er lögð áhersla á að heilsa og líðan allra íbúa sé höfð í fyrirrúmi í allri stefnumótun og á öllum sviðum, og í starfinu kristallast meginstoðir sem tryggja árangur í lýðheilsu. Árangur heilsueflandi samfélags felst í því að tengja saman alla þætti samfélagsins á markvissan hátt og stefna að sama markmiði um vellíðan allra. Hér er til dæmis um að ræða stefnu og starf skóla, vinnustaða, heilsugæslu, sveitarstjórna, umhverfismála og menningar. Mér er það sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag, að fagna þessum tímamótum og taka þátt í að ýta úr vör svo mikilvægu verkefni sem endurspeglar vel stefnu ríkisstjórnarinnar um lýðheilsu og heilsueflingu. Stefna ríkisstjórnarinnar kemur skýrt fram í nýrri fjármálaáætlun til fimm ára þar sem áhersla er lögð á að efla heilsugæsluna. Hlutverk heilsugæslunnar verður styrkt í sambandi við forvarnir og heilsueflingu, til dæmis með því að fjölga faghópum í framlínu þjónustunnar“ sagði heilbrigðisráðherra meðal annars í ávarpi sínu. Hann sagði ánægjulegt til þess að vita að í Bláskógabyggð sé þegar búið að leggja drög að stefnumótun og setningu markmiða í anda heilsueflingar. Framundan séu mikilæg skref sem fela í sér frekari mótun starfsins að þörfum og áherslum íbúa Bláskógabyggðar.“